Norðurþjóðaverkefnið

Þann 1. júní sl. fór formlega af stað stórt og fjölþjóðlegt verkefni á vegum Þjóðlagasetursins hér á Siglufirði og Fjallabyggðar, styrkt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins og Norrænu menningargáttinni.

Þjóðlagasetrið á Siglufirði á frumkvæðið að verkefninu sem nefnist Norðurþjóðaverkefnið og felst í því að sameina upplýsingar um þjóðdansa og þjóðtónlist allra landa við norðanvert Atlantshaf.

Markmið verkefnisins er að þróa arðbæra atvinnugrein sem byggir á varðveislu, rannsóknum og kynningu á þjóðdönsum og þjóðtónlist þessara þjóða með því að opna veglega sýningarsali helgaða þjóðtónlist og þjóðdönsum landanna við norðanvert Atlantshaf; byggja upp fjölþjóðlega akademíu sem kennir þjóðtónlist og þjóðdansa í menningarsögulegu samhengi; koma á fót sameiginlegum gagnagrunni og halda veglega þjóðlagahátíð allra landanna.

Undirbúningsvinna og leit að samstarfsaðilum, innanlands og utan, hófst fyrir alvöru fyrir rúmu ári og lauk þeim fyrst áfanga í mars 2009 með því að sótt var um forstyrk til Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins og í Norrænu menningargáttina. Báðir styrkirnir fengust og hófst Norðurþjóðaverkefnið formlega 1. júní síðast liðinn.

Þjóðlagasetur og Fjallabyggð eru leiðandi aðilar forverkefnisins og er dr. Guðrún Ingimundardóttir verkefnisstjóri. Hægt er að fá nánari upplýsingar um verkefni á heimasíðu Þjóðlagaseturs http://www.folkmusik.is/