Munið að sækja um byggingarleyfi!

Af gefnu tilefni, viljum við minna íbúa á að sækja um byggingarleyfi til skipulags- og umhverfisnefndar áður en hafist er handa við að reisa háa skjólveggi eða aðrar breytingar á viðmóti húsa.

Láti húseigandi hjá líða að sækja um byggingarleyfi fyrir leyfisskyldri framkvæmd getur byggingarfulltrúi farið fram á tafarlausa stöðvun framkvæmda þar til leyfisumsókn hefur verið afgreidd. Brjóti viðkomandi framkvæmd einnig í bága við skipulag er byggingarfulltrúa jafnframt skylt að láta fjarlægja hið byggða og færa til fyrra horfs. Það er því vissara að vera með formsatriðin á hreinu.

Byggingarleyfi þarf fyrir hverskonar byggingum ofan jarðar og neðan. Óheimilt er að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun, nema fyrir liggi byggingarleyfi sem hlotið hefur staðfestingu bæjarstjórnar.Dæmi um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir eru:

 • Grunnur húsbyggingar.
 • Niðurrif húsa.
 • Breytingar á húsum (burðarkerfi, formi eða svipmóti, klæðning/einangrun utanhúss).
 • Breytingar á notkun húsnæðis.
 • Göngubrýr í þéttbýli.
 • Sólpallar.
 • Girðingar hærri en 1,8 m eða nær lóðamörkum en sem nemur hæðinni.
 • Steyptir skjólveggir og varanlegar réttir.
 • Sundlaugar og heitir pottar.
 • Móttökudiskar.
 • Auglýsingaskilti.
 • Önnur mannvirki sem ekki eru sérstaklega undanþegin byggingarleyfisskyldu. 
Nánari upplýsingar er að finna í leiðbeiningarblaði Skipulagsstofnunar um byggingarleyfi.