Málþing um sjókvíaeldi tókst vel

Um 120 manns sóttu málþing um sjókvíaeldi sem haldið var í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði föstudaginn 30. júní sl. Málþingið var haldið af Fjallabyggð. 

Umræðuefni málþingsins voru efling dreifðra byggða, þjóðhagsleg hagkvæmni sjókvíaeldis og umhverfismál tengd sjókvíaeldi.

Fyrst á mælendaskrá var Ásthildur Sturludóttir, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur í Vesturbyggð en hún fór yfir samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis í Vesturbyggð en fram kom hjá Ásthildi að Sveitarfélagið Vesturbyggð bindur miklar vonir við að fiskeldi á Vestfjörðum verði arðbær atvinnugrein sem auki hagsæld og fjölgi atvinnutækifærum í sveitarfélaginu og á Vestfjörðum öllum til framtíðar. Gísli Jónsson, dýralæknir fiskisjúkdóma fjallaði um sjúkdóma í íslensku sjókvíaeldi. Dr. Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, ræddi þjóðhagsleg áhrif sjókvíaeldis, uppgang í atvinnugreininni í bæði Noregi og Færeyjum. Framfarir í þekkingu sjókvíaeldis, bein og óbein áhrif eldis á samfélagið, óvissuþætti og áhættu.  Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar fjallaði um framtíð, áhrif og áskoranir sjókvíaeldis í Fjarðabyggð. Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála fjallaði um áhrif sjókvíaeldis á byggðaþróun. Marita Rasmussen, forstöðumaður Industriens Hus í Færeyjum kynnti starfsemi hússins og sagði frá reynslu Færeyinga af sjókvíaeldi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fjallaði um framtíð sjókvíaeldis á Íslandi og að lokum athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson, en hann var með erindið „er sjókvíaeldi ógn eða viðskiptatækifæri“. 

Í lok málþingsins fóru svo fram almennar umræður og fyrirspurnir úr sal og beindust þær fyrst og fremst að ráðherrunum Jóni Gunnarssyni og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Fundarstjóri var Dr. Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar.

Erindin sem flutt voru eru:

Ásthildur Sturludóttir, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur (bæjarstjóri í leyfi) "Samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis í Vesturbyggð".
Gísli Jónsson, dýralæknir fiskisjúkdóma, "Eru sjúkdómar vandamál í íslensku sjókvíaeldi"?
Dr. Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands "Þjóðhagsleg áhrif sjókvíaeldis"
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar "Framtíð, áhrif og áskoranir sjókvíaeldis í Fjarðabyggð"
Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, "Áhrif sjókvíaeldis á byggðaþróun"
Marita Rasmussen, forstöðumaður Industriens Hus í Færeyjum  "Reynsla Færeyinga af sjókvíaeldi"
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra "Framtíð sjókvíaeldis á Íslandi"
Róbert Guðfinnsson, athafnamaður "Er sjókvíaeldi ógn eða viðskiptatækifæri"?

Erindin er hægt að fá til lestrar hjá Fjallabyggð.