Málþing um atvinnumál.

Þann 4. nóvember 2005 standa Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Svæðisráð Svæðisvinnumiðlunar Norðurlands vestra fyrir málþingi um atvinnumál á Norðurlandi vestra. Yfirskrift málþingsins er Norðurland vestra 2020 og verður það haldið í Verinu, húsnæði Háskólans á Hólum á Sauðárkróki. Málþingið stendur frá 10:30 til 17:00.Á málþinginu verður reynt að varpa ljósi á þróun atvinnulífs á Norðurlandi vestra síðustu fimmtán árin og hvernig líklegt er að atvinnulíf muni þróast á næstu 15 árum, en í tengslum við málþingið hefur verið gerð nokkuð umfangsmikil könnun á framtíðarsýn atvinnurekenda á Norðurlandi vestra. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir hefur framsögu á málþinginu en þennan dag mun ráðherra einnig tilnefna starfshóp til undirbúnings að vaxtarsamningi fyrir Norðurlands vestra.Á málþinginu verður reynt að draga fram hvernig atvinnulíf hefur þróast á undanförnum árum, staða atvinnulífs í dag verður skoðuð sérstaklega og reynt að skyggnast inn í framtíðina með aðstoð atvinnurekenda og sérfræðinga á sviði atvinnu- og menntamála. Yfirskrift málþingsins verður Norðurland vestra 2020, og er hugmyndin að varpa ljósi á mögulega framtíð atvinnuveganna til þess tíma. Í raun má segja að málþinginu sé ætlað að svara eftirfarandi þrem spurningum.1 Hvernig hefur atvinnulífið á Nv þróast síðustu 15 árin?2 Hver er staða atvinnulífsins í dag og hvaða kraftar verka á það?3 Hvernig má búast við að atvinnulífið verði á Nv eftir 15 ár?Leitast verður við að svara ofangreindum spurningum útfrá ólíkum forsendum og í anddyri ráðstefnuhússins verður sett upp sýning, þar sem þróun atvinnumála á Norðurlandi vestra í fortíð, nútíð og framtíð verður gerð skil. Kynntar verða niðurstöður viðamikillar könnunar sem gerð var meðal atvinnurekenda á Norðurlandi vestra í þeim tilgangi að varpa ljósi á framtíðarsýn þeirra.Erindi framsögumanna, sem eru virtir fræðimenn og þátttakendur í Íslensku atvinnulífi, munu fjalla m.a. um vaxtasamninga, samstarf atvinnurekenda, þróun mannfjölda, uppbyggingu lítilla fyrirtækja, áhrif menntunar á menningu og atvinnulíf ásamt mikilvægi jákvæðrar ímyndar fyrir Norðurland vestra. Að fyrirlestrum loknum verða settir saman umræðuhópar sem ætlað er að ræða nánar það sem fram kemur á málþinginu. Hverjum hópi er falið tiltekið umfjöllunarefni tengt atvinnuþróun og er þeim ætlað að komast að niðurstöðu um hvert sé æskilegt að stefna og hvaða leiðir séu vænlegar til að ná árangri í atvinnuþróun Niðurstöður hópanna verða kynntar í lok málþingsins.