Ljóðahátíðin Glóð á Siglufirði

Dagana 18.-20. október fer fram ljóðahátíð á Siglufirði og hefur hún hlotið nafnið Glóð og er stefnt að því að gera hana að árlegum viðburði.  Það eru Ungmennafélagið Glói og Herhúsfélagið á Siglufirði sem standa að hátíðinni í samvinnu við Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar.  Ljóðahátíð þessi kemur í kjölfar ljóðakvölda sem Ungmennafélagið Glói hefur staðið fyrir á Siglufirði undanfarna tvo vetur.  Þar hafa ljóðavinir komið saman 5-6 sinnum yfir veturinn og flutt eigin verk og annarra í tali og tónum.  Hafa ljóðakvöld þessi verið mjög vel heppnuð og ágætlega sótt.

 

Ljóðahátíðin Glóð hefst fimmtudagskvöldið 18. október með ljóðakvöldi í Þjóðlagasetrinu  þar sem valinkunnir bæjarbúar koma fram og flytja eigin ljóð og annarra.  Síðan rekur hver viðburðurinn annan og hátíðinni lýkur í Herhúsinu á laugardagskvöldi með dagskrá í tali og tónum sem tileinkuð er Jónasi Hallgrímssyni.  Auk ljóðakvölda og annarra upplestra verða í boði námskeið í bragfræði og framsögn, einleikurinn Aumingja litla ljóðið og glerverkasýning.  Sérstakir gestir hátíðarinnar eru Sigurður Skúlason leikari, þýðandi og ljóðskáld, Þórarinn Torfason ljóðskáld, Elfar Logi Hannesson leikari og Dröfn Guðmundsdóttir myndhöggvari.

Dagskrána er hægt að finna hér