Listamannaspjall með Aðalheiði S. Eysteinsdóttur í Listasafni Akureyrar

Listamannaspjall með Aðalheiði S. Eysteinsdóttur um sýningu hennar Hugleiðing um orku verður haldið i Listasafni Akureyrar þann 9. september nk. frá kl. 15:00-15:45. Stjórnandi verður Hlynur Hallsson, safnstjóri og sýningarstjóri sýningarinnar.

Verkin á sýningu Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur (f. 1963), Hugleiðing um orku, fjalla um næringu, náttúru, notagildi, sjálfbærni og samlyndi. Næring líkama og sálar, og tilvist í sátt við náttúruna og samfélagið, eru manneskjunni lífsnauðsynlegir þættir. Ekki aðeins til að lifa af heldur einnig til að gefa lífinu tilgang: að upplifa, elska, nærast, gagnrýna og meðtaka.

"Oft fær listin fólk til að staldra við og hugsa nýja hugsun og er því tilvalinn vettvangur tilraunastarfsemi. Þar eru engin fyrirfram mótuð svör, reglur eða mælikvarði. Frelsi til sköpunar er algjört og skilningur einstaklingsbundinn".

Aðalheiður útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri 1993 og hefur síðan haldið yfir 150 einkasýningar í 14 löndum og tekið þátt í fjölda samsýninga. Árið 2000 var hún útnefnd bæjarlistamaður Akureyrar, sama ár og hún hóf þátttöku í Dieter Roth-akademíunni. Aðalheiður hlaut menningarverðlaun DV 2015 og tilnefningu til Eyrarrósarinnar 2017.

Allir velkomnir.