Leggja til stofnun samgöngufélags í Eyþingi

Nefnd sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði til að fjalla um almenningssamgöngur á Norðurlandi eystra hefur skilað tillögum sínum. Meðal annars er lagt til að stofnað verði samgöngufélag sem skipuleggi samhæft almenningssamgöngukerfi sem rekið verði sem þróunarlíkan.
Svæðið sem nefndin fjallar um í greinargerð sinni er starfssvæði Eyþings allt frá Fjallabyggð í vestri að Langanesbyggð í austri. Lagt er til að sveitarfélögin stofni einkahlutafélag, samgöngufélag, undir forystu samtakanna sem fengið verði það hlutverk að sjá um þróun, stjórnun og eftirfylgd með uppbyggingu og rekstri samhæfðra almenningssamgangna á svæðinu. Lagt er til að skilgreina svæðið í mismunandi byggðastig til að skapa forsendur fyrir opinberum stuðningi án þess að brjóta í bága við ákvæði samkeppnislaga og regluverk EES.

Á þessum grunni verði síðan skilgreindar mismunandi áætlunarleiðir milli þéttbýlisstaða innan svæðisins og með tengingum út fyrir svæðið. Komið verði á samhæfðu kerfi sem tengist sambærilegum einingum og öðrum ferðamátum, svo og samhæfðu upplýsingakerfi og samræmdu miðasölukerfi. Einnig er lagt til að byggð verði upp samgöngumiðstöð á Akureyri.

Í greinargerð nefndarinnar er gerð ítarleg grein fyrir niðurstöðum í samræmi við skipunarbréfið og þá afmörkun sem hún setti sér. Fjallað er um forsendur og markmið almenningssamgangna á Eyþingssvæðinu, stjórnun og rekstur, stefnumótun, uppbyggingu leiðakerfis og upplýsinga- og greiðslukerfi.

Greinargerðin fjallar einnig um samvinnu ríkis og sveitarfélaga á sviði almenningssamgangna. Fjallað er um möguleika sem felast í breyttri afstöðu vegna umhverfis- og efnahagsmála. Einnig möguleika sem felast í tækni sem tiltæk er nú þegar og gæti fært almenningssamgöngur nær fólkinu í landinu. Nefndin lítur á það sem verkefni væntanlegs samgöngufélags að þróa og skipuleggja kerfi almenningssamganga svæðisins eins og lýst er í greinargerðinni.

Almenningssamgöngur á Norðurlandi eystra - greinargerð