Kompan, Alþýðuhúsið á Siglufirði - Sýningaropnun helgina 31. júlí kl. 14:00 - 17:00

Eftir regnið – 14. ágúst 2019
Mynd. Sigtryggur Bjarni Baldvinsson
Eftir regnið – 14. ágúst 2019
Mynd. Sigtryggur Bjarni Baldvinsson

Föstudaginn 31. júlí kl. 14.00 - 17.00 opnar Sigtryggur Bjarni Baldvinsson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina “Eftir regnið – 14. ágúst 2019”.
Sýningin er opin daglega frá kl. 14.00 - 17.00 þegar skilti er úti og stendur til 16. ágúst.

Um sýninguna segir listamaðurinn: 

Sýninguna má skoða sem rökrétt framhald af sýningu minni “Útvarp Mýri” sem haldin var í Hverfisgalleríi í Reykjavík á síðasta ári. Ég set mig í hlurverk fréttamanns sem leitar tíðinda úr ríki náttúrunnar. Ég horfi á og gaumgæfi íbúa mýrinnar það stíft og ákaft að segja má að ég hlusti á blómin og vatnið.  Tengiliðurinn er málverkið, tugþúsunda ára gömul aðferð mannsins við að tala við náttúruna. Um miðjan ágúst í fyrra gerði mikið vatnsveður á Tröllaskaga og flæddi meðal annars inn í Alþýðuhúsið sem hýsir sýninguna nú. Þar sem ég er sjálfskipaður fréttritari ríkissins í Héðinsfirði fór ég í vatnsósa fjörðinn eftir að mesta úrhellinu slotaði, nánar tiltekið þann 14. ágúst um hádegisbil. Afrakstur viðtalanna sem ég tók þann dag í firðinum við gróður jarðar og margra mánaða eftirvinnslu þeirra er sýningin í Kompunni í Alþýðuhúsinu. 

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson er fæddur á Akureyri árið 1966. Hann stundaði nám í Myndlistaskólanum á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi frá the École des Arts Decoratifs í Strassborg í Frakklandi.
Sigtryggur hefur í málverkum, ljósmyndum og vatnslitamyndum gert afmörkuðum náttúrufyrirbrigðum skil. Vatnsfletir hafa verið leiðandi stef í verkum hans, straumvatn og haffletir sem endurspegla hinar höfuðskepnurnar, ljós, loft og jörð og einstaka krafta náttúrunnar svo sem vind og þyngdarafl. Sigtryggur hefur einnig reynt að skýra og draga fram uppbyggingu eða niðurröðun hlutanna í heiminum meðal annars með myndum af blómabrekkum og laufskrúði trjáa. Spurningar, um erindi nútímamannsins út í ósnortna náttúru og ábyrgð mannsins gagnvart henni, marka nú vinnu listamannsins með vaxandi þunga.

Verk Sigtryggs hafa verið sýnd á einkasýningum og samsýningum á helstu söfnum hérlendis. Einkasýningarnar eru orðnar vel á fjórða tug.  Verk hans eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Háskóla Íslands, Listasafnsins á Akureyri, Listasafns Reykjanesbæjar, Hæstaréttar Íslands, Landspítalans og Gerðarsafns og ýmissa fyrirtækja og einkaaðila. Sigtryggur hefur kennt við Listaháskóla Íslands, Myndlistaskólann í Reykjavík, Myndlistaskóla Kópavogs og Myndlistaskólann á Akureyri.  Sigtryggur sat í safnráði Listasafns Íslands um fjögurra ára skeið og hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum sem fulltrúi Sambands íslenskra myndlistarmanna. 

Uppbyggingarsjóður/Eyþing , Fjallabyggð, Eyrarrósin, Kjörbúðin, Aðalbakarí og Tannlæknar Fjallabyggð styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.