Íris hlaut viðurkenningu fyrir mastersritgerð

Íris að taka við viðurkenningunni úr hendi Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa
Íris að taka við viðurkenningunni úr hendi Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa
Skipulagsverðlaunin 2014 fóru fram við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 26.nóvember sl. 
Verðlaunin eru veitt annað hvert ár til sveitarfélaga, stofnana eða einkaaðila sem hafa gert vel á sviði skipulagsmála og lagt sitt af mörkum til að bæta og fegra umhverfi í þéttbýli og dreifbýli með faglegri skipulagsgerð. Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu, auka skilning á skipulagsmálum og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma.

Skipulagsverðlaunin eru annars vegar veitt fyrir skipulag, þ.e. skipulagstillögu eða staðfest skipulag og hins vegar fyrir sérstök og afmörkuð verkefni í tengslum við skipulag, svo sem frumkvöðlastarf og nýbreytni eða miðlun upplýsinga um skipulagsmál, svo eitthvað sé nefnt. 

Íris Stefánsdóttir, tæknifulltrúi Fjallabyggðar hlaut nemendaverðlaunin að þessu sinni fyrir mastersritgerð sína í Skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Ferðavenjur skólabarna í Reykjavík – Áhrif hins byggða umhverfis á val ferðamáta. 

Umsögn dómnefndar.
Var dómnefnd sammála um að hér væri á ferðinni áhugavert grasrótarverkefni. Það er samfélagslega mikilvægt að hafa áhrif á lífsstíl og það að ganga í skóla er og verði virkur ferðamáti. Verkefnið var vel unnið og mikilvægt skref í átt að sjálfbærri þróun og sjálfbæru skipulagi sveitarfélags.

Vill dómnefnd hvetja sveitarfélög til að huga að ferðavenjum barna við skipulagsgerð og benda á mikilvægi þess að fara fótgangandi í skóla sé virkur ferðamáti.

Hægt er að nálgast ritgerðina hér.


Íris Stefánsdóttir glöð með viðurkenninguna.