Íbúafundur um skipulagsmál á Siglufirði

Kynningarfundur um tillögu að breytingu á staðfestu aðalskipulagi Siglufjarðar 2003-2023, svæði við Túngötu, og tillögu að nýju aðalskipulagi Fjallabyggðar verður haldinn í Allanum fimmtudaginn 15. apríl kl. 20.00.

Breytingin felur í sér að núverandi svæði sem skilgreint er sem „opið svæði til sérstakra nota“, knattspyrna, breytist og fái landnotkunina „miðsvæði“ í samræmi við aðliggjandi svæði og tillögu að aðalskipulagi Fjallabyggðar 2008-2028, sem er í vinnslu.  Stærð svæðisins er 3.900 m2 að flatarmáli.

Breytingin er tilkomin vegna þess að ekki er lengur talin þörf fyrir knattspyrnuvöll af þessari stærð né á þessum stað. Svæðið sem breyting þessi nær til er malavöllur, sem notaður var til knattspyrnuiðkunar, en notkun hans hefur legið niðri um árabil. Með sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar í sveitarfélagið Fjallabyggð var tekin sú ákvörðun að markviss uppbygging íþróttasvæða og knattspyrnuvalla skuli eiga sér stað við Hól, rétt sunnan þéttbýlisins á Siglufirði og í Ólafsfirði. Þar með hafa grunnforsendur fyrir knattspyrnuvelli á þeim stað sem skipulagsbreytingin tekur til fallið niður og því er ekki gert ráð fyrir slíkum velli í framtíðinni.

Á Siglufirði er undirlendi lítið og skortur á byggingarhæfum lóðum vegna takmarkana á landnýtingu sökum ofanflóðahættu. Breyting á skilgreiningu þessa svæðis í miðsvæði er í samræmi við stefnu um þéttingu byggðar.
Aðstaða barna til að stunda knattspyrnu innan þéttbýlisins hefur batnað stórlega með tilkomu gervigrasvallar sem er staðsettur við grunnskóla Siglufjarðar, við Vetrarbraut. Gert er ráð fyrir að þörf þeirra verði mætt með sambærilegum hætti annars staðar í þéttbýlinu og að í deiliskipulagi svæðisins verði mætt þörf íbúa til útivistar og leikja. Kynntar verða þær hugmyndir sem fram eru komnar um svæðið.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar