í góðu skapi - Tónleikar í Þjóðlagasetri

Sunnudagskvöldið 19. ágúst mun fjöllistakonan Unnur Malín Sigurðardóttir skapa notalega stemmningu með söng, gítarleik og upplestri í Bjarnastofu Þjóðlagasetursins. Flutt verða fjölþjóðleg sönglög, flest frumsamin, en einnig fá nokkrar vel valdar ábreiður að fljóta með í bland. Til að brjóta upp tónaflóðið mun Unnur Malín að auki krydda efnisskrána með upplestri úr nokkrum vel völdum bókum. Upplesturinn samanstendur af léttum og stuttum köflum úr verkum Elísabetar Jökulsdóttur, Örlygs Sigurðssonar, föðurafa Unnar Malínar, og fleirri höfunda.

Unni Malínu finnst gaman að spinna af fingrum fram og þannig vinna með allt litróf tilfinningaskalans. Tónlist hennar er fjölbreytt, oft þjóðlagaskotin og dálítið djössuð. Finna má seiðandi lúppur og kjafttakta, aðlaðandi og grípandi laglínur við texta á hinum ýmsu tungumálum. Hljóðheimurinn er fjölbreyttur og áhugaverður, dramatískur og fyndinn.

Unnur Malín er afar fjölhæfur listamaður sem hefur rannsakað hina ýmsu kima listarinnar. Hún hefur haldið alls kyns tónleika þar sem hún leikur á mörg ólík hljóðfæri og syngur af hjartans lyst. Hún hefur fengist við leiklist með áhugaleikfélögum, lesið upp ljóð og texta og framið gjörninga. Þá hefur hún sinnt myndlist í hjáverkum og eftir hana liggja tvívíð og þrívíð verk. Unnur Malín hefur einnig fengist við tónsmíðar og meðal þeirra flytjenda sem flutt hafa verk hennar eru Duo Harpverk, Kammerkór Suðurlands, Skálholtskórinn og Lúðrasveit Reykjavíkur.

Um árabil lék Unnur Malín í hljómsveitinni Ojba Rasta. Hljómsveitin átti nokkrum vinsældum að fagna, túraði vítt og breytt um landið og gaf út tvær breiðskífur. Með Ojba Rasta lék Unnur Malín í fyrsta sinn á Siglufirði – en hún hefur alla tíð haft sterka tenginu við fjörðinn og má segja að hún hagi sér líkt og farfugl sem kemur á hverju sumri (eða svona hér um bil). Unnur Malín hélt sína fyrstu sólótónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði fyrir rúmum tveimur árum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, ný lög litið dagsins ljós og sum tekið stökkbreytingum.

Láttu þessa stund ekki framhjá þér fara. Ef þú veist ekki í hverju þú átt að vera, vertu þá bara í góðu skapi!

Kvöldstundin hefst klukkan 20:00, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!