Hugleiðing í aðdraganda jóla og áramóta.

Kæru íbúar Siglufjarðar.Nú þegar árið er að renna sitt skeið og jólahátíðin nálgast er ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg og velta fyrir sér hvernig mál horfa fyrir íbúum Siglufjarðar á þessum tímamótum.Íbúum fækkaði nokkuð í bænum okkar á árinu sem er að líða og er það mjög miður. Þrátt fyrir að ýmis nýsprotastarfsemi hafi verið að þróast í atvinnulífinu á undanförnum árum og ekki hafi borið á miklu atvinnuleysi heldur okkur áfram að fækka. Sú þensla sem verið hefur á suðvesturhorninu virðist enn toga til sín fólk og þá helst fólk úr jaðarbyggðum eins og okkar. Óskandi er að við förum að sjá fyrir endann á þessari þróun og tel ég margt í farvatninu sem gefi okkur vonir um að sú verði raunin.Það er ekki ástæða til annars fyrir okkur Siglfirðinga en bera höfuðin hátt og líta björtum augum fram á veg. Ef fram heldur sem horfir verður mikið um að vera hjá okkur næstu ár. Framkvæmdir hefjast við ný snjóflóðavarnarmannvirki á næsta ári sem standa munu yfir óslitið til ársins 2010 ef áætlanir standast. Munu mannvirkin auka mjög öryggi íbúanna og jafnframt skapa spennandi útivistarumhverfi ef rétt er á málum haldið. Jafnframt hefst á árinu undirbúningur vegna fyrirhugaðrar jarðgangagerðar um Héðinsfjörð til Ólafsfjarðar en sú framkvæmd verður boðin út í febrúar n.k. Er hugsanlegt að strax næsta sumar verði hafist handa við vega- og brúargerð í botni fjarðarins sem er liður í undirbúningnum. Framkvæmdir við sjálf jarðgöngin eiga síðan að hefjast árið 2004. Af ofansögðu er ljóst að umsvif verða mikil á næstu árum. Nauðsynlegt er fyrir okkur að nýta vel þau tækifæri sem þetta skapar okkur til bætts mannlífs í okkar ágæta bæ. Horft er mjög til þess í vinnu við gerð nýs aðalskipulags til ársins 2022 sem nú stendur yfir.Bæjarstjórn Siglufjarðar og starfsfólk Siglufjarðarkaupstaðar senda Siglfirðingum og fjölskyldum þeirra nær og fjær og landsmönnum öllum óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með þökk fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða. Guðmundur Guðlaugssonbæjarstjóri