Hreyfivika UMFÍ

Í gær, mánudaginn 23. maí, hófst Hreyfivika UMFÍ. Hreyfivika UMFÍ er árleg lýðheilsuherferð og hefur það að markmiði að kynna kosti þess að taka þátt í hreyfingu og íþróttum. UMFÍ vill að allir landsmenn finni sína uppáhalds hreyfingu. Börn eiga að hreyfa sig að lágmarki 60 mínútur daglega og fullorðnir í 30 mínútur.

Einn liður í Hreyfiviku UMFÍ er sundkeppni á milli sveitarfélaga. Árið 2015 tóku 28 sveitarfélög virkan þátt í keppninni og syntu 4.300 einstaklingar samanlagt 4.900 kílómetra sem er álíka langt og frá Íslandi til New York. Athygli er vakin á því að sundkennsla og sundæfingar teljast ekki með. Fjallabyggð er með í þessari keppni og eru sem flestir hvattir til að mæta í sund og taka þátt. Skráningarblöð eru á staðnum.

Á síðasta ári myndaðist afar skemmtileg stemning í mörgum sveitarfélögum í Hreyfiviku UMFÍ. Mjög margar skemmtilegar frásagnir voru sendar inn til UMFÍ með niðurstöðum dagsins. T.d. komu fregnir af því að fólk var mikið að bæta við sína venjulega metra, synda örlítið lengra en vaninn var. Eins komu sögur af fólki sem rifjaði upp sundtökin í stað þess eins að heimsækja heitapottinn.

Hjólreiðafélag Fjallabyggðar verður með tvær ferðir sem lið í dagskrá Hreyfivikunnar og er mæting við Íþróttamiðstöðina í Ólafsfirði kl. 17:00 í dag, þriðjudag og fimmtudaginn 26. maí á sama tíma.

Hjólagarpar Hjólreiðafélags Fjallabyggðar
Þessir kappar tóku þátt í Hreyfiviku UMFÍ, 2015.

Hreyfivikan fer fram 23. - 29. maí 2016.