Hreyfivika í Fjallabyggð

Að frumkvæði Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF) verður haldin svokölluð Hreyfivika í Fjallabyggð vikuna 29. september – 5. október. 
Hreyfivikan, eða Move Week, er partur af alþjóðlegri herferð sem hefur það að markmiði að kynna kosti þess að taka virkan þátt í hreyfingu og íþróttum til að bæta heilsuna. Þessi herferð fór af stað í Evrópu 2012 og Ísland var með í fyrsta sinn í fyrra og er verkefnið á höndum Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) hér á landi. Framtíðarsýn þeirra sem standa að Move Week er að 100 milljónir fleiri Evrópubúa verði orðnir virkir í hreyfingu og eða íþróttum fyrir árið 2020.

Hreyfingarleysi verður sífellt stærra heilsufarsvandamál og er talið að á hverju ári megi rekja um 600.000 dauðsföll í Evrópu beint til hreyfingarleysis. Því er mikilvægt að sem flestir finni sér  hreyfingu við hæfi og hreyfi sig rösklega í a.m.k. 30 – 60 mínútur á dag.
UÍF, aðildarfélög þess og Fjallabyggð hafa tekið höndum saman um að búa til skemmtilega og fjölbreytta hreyfidagskrá í næstu viku þar sem flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Auk þess sem Fjallabyggð býður frítt í sund þrjá daga vikunnar og frítt er í líkamsræktarstöðvarnar alla vikuna. 

Nú er tíminn til að finna sér sína hreyfingu; prufa eitthvað nýtt, sjá hvað íþrótta- og ungmennafélögin hafa uppá að bjóða,  kíkja í ræktina, skella sér í sundlaugina, fara út að ganga eða hjóla, dansa eða hvað sem þér finnst skemmtilegt. Gefðu þér tíma til að hreyfa þig 30 – 60 mínútur á dag, heilsunnar vegna.