Grein bæjarstjóra um umferðaröryggisáætlun

Grein frá Bæjarstjóra Fjallabyggðar vegna vinnu við umferðaröryggisáætlun Fjallabyggðar má sjá hér að að neðan:

 "Greinin má finna í pdf formi hér"

Ágætu bæjarbúar.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir góðar umræður á fundum um Umferðaröryggis-áætlun Fjallabyggðar, sem haldnir voru þriðjudaginn 15. janúar 2013  og miðvikudaginn 16. janúar 2013 í grunnskólum Fjallabyggðar.

Íbúar eru nú hvattir til að hafa bein áhrif á mikil framfaramál í sínu nær umhverfi og taka beina afstöðu í einstaka málum. Lögð er áhersla á að íbúar komi fram með sínar væntingar, áherslur og lausnir. Kjörnir bæjarfulltrúar eru til staðar sem og embættismenn og það er brýnt að allir séu í  sama liði er varða mál sem snerta okkar daglega líf og öll öryggismál til framfara í bæjarfélaginu.  Hægt er að fullyrða að við höfum flest sömu markmið er varðar t.d. öryggismál en ágreiningur er á stundum um lausnir, leiðir og/eða framkvæmdaröð verkefna.

Umferðaröryggisáætlun er eitt þeirra verkefna sem nú er í vinnslu og þar var ætíð ætlunin að óska eftir beinni aðstoð bæjarbúa, enda hafa komið fram ábendingar um að víða sé úrbóta þörf.

Í hinu daglega lífi teljum við okkur trú um að við förum að settum reglum og að merkingar og gatnakerfið sé rétt hannað og að mestu í lagi í okkar umhverfi -- en er það svo?

Fram hafa komið gagnlegar ábendingar um það sem betur má fara. Ætlunin var vissulega að ljúka verkefninu fyrr. Við þær vonir og á þeim forsendum var fyrirspurnum svarað.

Tillögur og umræður um breytingar hafa verið ræddar undir leiðsögn Umferðarstofu. Með áherslum frá Vegagerðinni var vinnuferlið ákveðið, rannsóknir gerðar, sem tóku lengri tíma en upphaflega  var áætlað. 

Umferðarkerfi tveggja bæjarfélaga var nánast snúið á haus með tilkomu Héðinsfjarðarganga og miklar framkvæmdir eiga eftir að eiga sér stað til að ná fram settum markmiðum í aðalskipulagi bæjarfélagsins.
Í mikið var því ráðist þegar tveir bæjarkjarnar og gegnumakstur þeirra varð að veruleika.

Rétt er að minna á;

·        Umferðaröryggisáætlunin er samstarfsverkefni bæjarfélagsins og Umferðarstofu í góðum tengslum við Vegagerðina.

·        Samráðshópur var myndaður um verkefnið og samanstendur hann af fulltrúum frá:

Vegagerðinni, lögreglu, grunnskóla, ungmenna og íþróttasambandi Fjallabyggðar, kjörnum fulltrúum og starfsmönnum tæknideildar Fjallabyggðar.

·        Úttekt á umferðarmerkingum og umferðarmenningu Fjallabyggðar hefur verið gerð.

·        Kennarar og nemendur grunnskólans hafa teiknað gönguleiðir að og frá skóla.

·        Ráðist varí viðamiklar lagfæringar á umferðarskiltum og merkingum gatna.

·        Hönnun og tillögur Vegagerðar um lausnir fyrir biðstöðvar, nýja innkomu í bæjarfélögin eru til skoðunar en  hluti þeirra var samþykktur, í bæjarstjórn 10.10.2012.

·        Tæknideild hefur haldið samráðsfundi með Umferðarstofu, Vegagerðinni, skólaráði, foreldraráði og samráðshópnum.

En betur má ef duga skal – við þurfum frekari ábendingar frá íbúum við einstakar götur, hvað þarf þar að lagfæra?

Um leið og við fögnum allri málefnalegri umræðu þá er ljóst að vinnan hefur orðið umfangsmeiri en gert var ráð fyrir við umferðaröryggisáætlun bæjarfélagsins. Undirbúningur og faglegar úttektir sem og tillögur að lausnum hafa tekið of langan tíma miðað við upphafleg markmið.

Á þessum tveimur fundum komu fram góðar og gagnlegar ábendingar.

Þær voru t.d.

1.      Of mikill umferðarhraði er í báðum bæjarkjörnum.

2.      Bæta þarf stórlega allar merkingar í bæjarfélaginu.

3.      Bæjarbúar taka oft réttar merkingar ekki alvarlega.

4.      Bæta þarf snjómokstur og hálkuvarnir á gangstéttum í báðum bæjarkjörnum.

5.      Bæta þarf snjómokstur og hálkuvarnir við sundlaugar og skóla.

6.      Biðstöðvar almenningsvagna þarf að lagfæra hið fyrsta og skoða þarf betur framkomnar lausnir er það varðar.

7.      Fundarmönnum leist hinsvegar vel á framtíðar lausnir er varðar legu þjóðvegar.

8.      Tillögur um hringtorg var talinn góð lausn til að ná niður hraða.

9.      Aðrar hugmyndir og tillögur voru færðar til bókar og verða til skoðunar.

10.  Það kom fram á fundunum að Umferðarstofa og Vegagerðin telur að vinnunni miði vel og að vinnuferlið sé faglegt.

Rétt er að minna á, eins og  fram kom á fundinum, að lögð er mikil áherslu á þau tilmæli Umferðarstofu og fulltrúa Vegagerðar um víðtækt samráð við íbúa um umferðaröryggis-áætlun bæjarfélagsins sem gilda á til framtíðar. Sjá heimasíðu bæjarfélagsins http://www.fjallabyggd.is/ .

Umferðarstofa  hefur nú undirritað 18 samninga við yfir 70 sveitarfélög í landinu

Fjallabyggð er eitt þeirra og var það sveitarfélag sem skrifaði seinast undir samstarfið. Aðeins tvö sveitarfélög hafa lokið sinni áætlun þ.e. Grindavík og Borgarbyggð (sjá heimasíðu http://umferdarstofa.is/ ).

Ágætu bæjarbúar.

Allar framkomnar ábendingar verða teknar til umræðu innan stjórnsýslu Fjallabyggðar að höfðu samráði við Vegagerð og Umferðarstofu.
Nefndir Fjallabyggðar og kjörnir bæjarfulltrúar munu ræða tillögurnar og setja fram til samþykktar eins fljótt og verða má.

Áskorun til íbúa.

Skoðum þau gögn sem lögð voru fram á umræddum fundum. Gögnin eru  á heimasíðu bæjarfélagsins. Tæknideild hvetur alla til að senda inn frekari ábendingar um það sem betur má fara – nú er tækifærið – stöndum saman að lagfæringum og breytingum. 

Undirritaður vill þakka fundarstjórum og starfsmönnum tæknideildar fyrir yfirferð, fundarritun, skráningu ábendinga og stjórn funda.

Fulltrúum Vegagerðar og Umferðarstofu sem og öðrum sem komið hafa að verkinu ber einnig að þakka góðar tillögur, málefnalegar umræður og heilladrjúgar ábendingar.


Virðingarfyllst

Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri