Flokkun sorps í Fjallabyggð - alltaf má gera betur

Það er allra hagur að íbúar vandi flokkun heimilssorps í Fjallabyggð.

Íbúar Fjallabyggðar eru minntir á og hvattir til að vanda flokkun á sorpi betur en töluvert hefur borið á rangri flokkun og þá helst varðandi flokkun lífræns úrgangs sem fara á í brúnu tunnuna.

Grá tunnuna - Almennt sorp.

Almennt sorp er í raun blandaður úrgangur frá fyrirtækjum og heimilum. Þetta er að mestu úrgangur sem ekki getur flokkast í skilgreindan endurvinnsluferil og er þar af leiðandi óendurvinnanlegt. Dæmi um almennt sorp frá heimilum er t.d. bleiur, umbúðir úr blönduðu hráefni (t.d. plastumbúðir með álfilmu sem ekki er hægt að skilja frá), umbúðir sem ekki er hægt að hreinsa o.fl.

Græna tunnan - Endurvinnanlegt. 

Allir íbúar Fjallabyggðar eru með Græna tunnu við heimili sitt undir þann hluta heimilisúrgangs sem er endurvinnanlegur.  Mikilvægt er að gengið sé frá hráefninu samkvæmt meðfylgjandi leiðbeiningum, (Sorphirðuhandbókin 2015), annars er hætt við að hráefnið verði óhæft til endurvinnslu og endi í urðun. 

Breytingar á flokkun í Grænu tunnuna !

Ekki er lengur þörf á að setja málma og fernur/sléttan pappa, frauð og plast í sérstaka plastpoka. Þetta einfaldar flokkunina og gerir hana þægilegri fyrir notendur Grænu tunnunar og umhverfisvænni um leið. 

Bylgjupappi, skrifstofupappír, dagblöð, tímarit og málmar mega fara beint í tunnuna. Fernur, málma og plast þarf að skola áður en hráefnin fara í tunnuna. Þá er æskilegt að raða fernum hverri ofan í aðra þannig að þær myndi bunka. Stórar plastumbúðir mega einnig fara beint í tunnuna, en æskilegt er að setja þær minni í gegnsæjan poka.

Brúna tunnan - Lífrænn úrgangur. 

Brúna tunnan er ætluð undir lífrænan eldhúsúrgang. Allir matarafgangar sem falla til á heimilinu og annar lífrænn úrgangur má fara í þennan flokk. Dæmi um lífrænan úrgang frá heimilum er t.d. afskurður af ávöxtum, kjöti eða fisk. Brauðmeti, kaffikorgur, tannstönglar, tepokar og þess háttar. Lífrænum úrgangi er safnað innandyra í maíspoka sem brotna niður við jarðgerðina. Mjög mikilvægt er að nota ekki poka úr plasti þar sem þeir brotna ekki niður og geta valdið tjóni í jarðgerðarstöðinni.

Eins og meðfylgjandi myndir sýna hefur nokkuð borið á rangri flokkun og á það helst við um brúnu tunnuna, en í hana á einungis að fara lífrænt heimilissorp! Allir íbúar Fjallabyggðar eru vinsamlegast beðið um að gæta vel að þessu við flokkum heimilisúrgangs í brúnu tunnuna. Sömuleiðis eru sumarhúsaeigendur vinsamlega beðnir um að kynna vel fyrir leigjendum sínum reglur um flokkun sorps.

Rusl úr brúnu tunnunni  Rusl úr brúnu tunnunni

Mynd 1: Plast sem fannst í lífrænum úrgangi.  Mynd 2: Borðhnífar þessir komu með lífrænum úrgangi og skemmdu hnífa í hakkavél!

Minnum einnig á að opnunartími gámasvæða er alla virka daga milli kl. 15:00 - 18:00 og á laugardögum milli kl. 11:00 - 13:00

Spurningar og svör ...

Gagnlegar upplýsingar:

How to sort in the green bin and the brown bin.

Tablica segrgacji, zielony pojemnik, brązowy pojemnik

Ef þú finnur ekki þær upplýsingar sem þú leitar að á þessum síðum biðjum við þig að láta okkur vita svo við getum bætt úr því. Þannig getum við byggt upp góðan upplýsingabanka sem auðveldar okkur að flokka rétt. Sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 4649100.