Göngum í skólann hefst á morgun 7. september

Nú er skólastarf hafið á ný eftir sumarleyfí í Grunnskóla Fjallabyggðar. Verkefnið okkar Göngum í skólann (www.gongumiskolann.is) hefst á morgun 7. september þegar það verður sett í sextánda sinn sinn. Því lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum www.iwalktoschool.org miðvikudaginn 2. október.
Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.

Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta, hjólabretti eða annað. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða. 

Á hverju ári taka milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt og fyrsta árið voru þátttökuskólarnir 26 en alls 78 skólar skráðu sig til leiks árið 2021.

Grunnskóli Fjallabyggðar tekur þátt í  átakinu og er markmið verkefnisins að hvetja börnin til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka um leið færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. 

Heilsueflandi Fjallabyggð hvetur foreldra og börn til að nýta góða veðrið og ganga eða hjóla í skóla og vinnu.  Vegfarendur eru sömuleiðis beðnir um að sýna sérstaka aðgát í umferðinni og taka tillit til skólabarnanna. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að tryggja að börnin þeirra séu vel sýnileg á leið sinni til og frá skóla.

Á heimasíðu Göngum í skólann www.gongumiskolann.is eru allar nánari upplýsingar um verkefnið en þar má meðal annars finna skemmtilegar útfærslur nokkurra skóla á Íslandi á verkefninu auk ýmiss annars efnis frá þátttökuskólunum. 

Ágrip af sögu verkefnisins

Árið 1976 hófst verkefnið ,,Öruggari leið í skólann“ í Óðinsvéum í Danmörku eftir að mörg börn höfðu látist í umferðarslysum. Forystumenn í samfélaginu, kennarar, stjórnmálamenn og opinbert starfsfólk tók höndum saman til að breyta hættulegum götum í öruggar leiðir. Þremur árum síðar hafði árlegt slysahlutfall lækkað um 85%.

Síðan hefur þessu verkefni verið hleypt af stokkunum í löndum eins og Bretlandi, Ástralíu, Frakklandi, Japan og Bandaríkjunum. Samtökin Greenest City í Ontario áttu frumkvæðið með þátttöku þriggja skóla á Toronto-svæðinu árið 1997. Á sama tíma kostaði Greater Vancouver Regional District (GVRD) verkefni sem hvatti til virkari samgangna og varð það upphafið að ,,Way to Go!“ skólastarfinu. Fljótlega eftir það var ,,Öruggari leið í skólann“ komið á um allt Kanada.

Skólagöngudagurinn

,,Göngum með börnunum“ í skólann hófst 1997 í Chicago á vegum ,,Partnership for a Walkable America“. Árið 1998 hóf „Go for Green“ landsátakið ,,Virkar og öruggar“ leiðir í skólann í samstarfi við fyrsta ,,Skólagöngudaginn“ í Kanada. Þátttakan hefur aukist með ári hverju og árið 2003 tóku rúmlega 1900 skólar í Kanada þátt.

Árið 2004 varð ,,Alþjóðlegi skólagöngudagurinn“ að viku. Nú gengur verkefnið þannig fyrir sig að skólar geta valið sér að hafa átakið á þann máta sem hentar þeim, s.s. einn skólagöngudag, eina skólagönguviku eða nýtt sér alþjóðlega skólagöngumánuðinn - október - til að hvetja til þess að ganga í skólann.

Tenglar:

http://www.iwalktoschool.org/
http://www.saferoutesinfo.org/
http://www.walkbiketoschool.org/