Göngum í skólann hefst í dag 4. september

Nú er skólastarf hafið á ný eftir sumarleyfí í Grunnskóla Fjallabyggðar. Verkefnið Göngum í skólann (www.iwalktoschool.org) verður sett af stað í þrettánda sinn í dag miðvikudaginn 4. september og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.

Á hverju ári taka milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt og fyrsta árið voru þátttökuskólarnir 26 en alls 73 skólar skráðu sig til leiks árið 2018.

Grunnskóli Fjallabyggðar tekur þátt í  átakinu og er markmið verkefnisins að hvetja börnin til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka um leið færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Eru allir nemendur sem og starfsfólk grunnskólans hvött til að taka þátt og ganga eða hjóla í skólann þessa daga. 

Vegfarendur beðnir um að sýna sérstaka aðgát í umferðinni og taka tillit til skólabarnanna. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að tryggja að börnin þeirra séu vel sýnileg á leið sinni til og frá skóla.

Á heimasíðu Göngum í skólann www.gongumiskolann.is eru allar nánari upplýsingar um verkefnið en þar má meðal annars finna skemmtilegar útfærslur nokkurra skóla á Íslandi á verkefninu. 

Bakhjarlar Göngum í skólann verkefnisins eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Samgöngustofa, Ríkislögreglustjóri, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Embætti landlæknis og landssamtökin Heimili og skóli.

Ágrip af sögu verkefnisins

Árið 1976 hófst verkefnið ,,Öruggari leið í skólann“ í Óðinsvéum í Danmörku eftir að mörg börn höfðu látist í umferðarslysum. Forystumenn í samfélaginu, kennarar, stjórnmálamenn og opinbert starfsfólk tók höndum saman til að breyta hættulegum götum í öruggar leiðir. Þremur árum síðar hafði árlegt slysahlutfall lækkað um 85%.

Síðan hefur þessu verkefni verið hleypt af stokkunum í löndum eins og Bretlandi, Ástralíu, Frakklandi, Japan og Bandaríkjunum. Samtökin Greenest City í Ontario áttu frumkvæðið með þátttöku þriggja skóla á Toronto-svæðinu árið 1997. Á sama tíma kostaði Greater Vancouver Regional District (GVRD) verkefni sem hvatti til virkari samgangna og varð það upphafið að ,,Way to Go!“ skólastarfinu. Fljótlega eftir það var ,,Öruggari leið í skólann“ komið á um allt Kanada.

Skólagöngudagurinn

,,Göngum með börnunum“ í skólann hófst 1997 í Chicago á vegum ,,Partnership for a Walkable America“. Árið 1998 hóf „Go for Green“ landsátakið ,,Virkar og öruggar“ leiðir í skólann í samstarfi við fyrsta ,,Skólagöngudaginn“ í Kanada. Þátttakan hefur aukist með ári hverju og árið 2003 tóku rúmlega 1900 skólar í Kanada þátt.

Árið 2004 varð ,,Alþjóðlegi skólagöngudagurinn“ að viku. Nú gengur verkefnið þannig fyrir sig að skólar geta valið sér að hafa átakið á þann máta sem hentar þeim, s.s. einn skólagöngudag, eina skólagönguviku eða nýtt sér alþjóðlega skólagöngumánuðinn - október - til að hvetja til þess að ganga í skólann.

Tenglar:

http://www.iwalktoschool.org/

http://www.saferoutesinfo.org/

http://www.walkbiketoschool.org/