Góður árangur nemenda í 7. bekk við Grunnskóla Siglufjarðar

Dagrún Birta Gunnarsdóttir
Dagrún Birta Gunnarsdóttir
Nemendur í 7. bekk við Grunnskóla Siglufjarðar unnu til verðlauna í norrænu loftslagskeppninni sem haldin var dagana 11.-17. nóvember.  

Allur 7. bekkur tók þátt í fyrri hluta keppninnar sem var farsímakeppnin "Heiti síminn" þar sem krakkarnir svöruðu spurningum um loftslagsmál með sms sendingum.  Seinni hluti keppninnar fólst í því að gera tillögur um hvað hægt væri að gera til að stöðva loftslagsbreytingar.  Mælst var til að  þátttakendur nýttu sköpunarkraft sinn og hæfileika til að finna upp aðferðir til þess og koma með nýjar hugmyndir.

Norrænu menntamálaráðherrarnir og Norræna ráðherranefndin standa að þessu verkefni sem er hugsð til að auka meðvitund almennings um loftslagsmál sem og liður í undirbúningi að Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Kaupmannahöfn nú í desember.

Nemendur lögðu mikinn metnað í verkefnið og mættu í skólann til að ljúka því þrátt fyrir að ekki væri eiginlegur skóladagur. Verkefni frá þremur hópum voru send inn á "Norræna loftslagskortið" 

Verkefni Dagrúnar Birtu Gunnarsdóttur sem var hugmynd að umhverfisvænum sleða var valið til verðlauna fyrir Íslands hönd. Umsögn dómnefndar var þessi: „Skapandi innlegg sem sýnir loftslagsbreytingar með nýstárlegri lausn, sem felur í sér að hver einstaklingur verður að búa til þá orku sem hann notar með því að stunda hreyfingu".

Verðlaunin sem bekkurinn fékk eru 5 þúsund danskar krónur sem Telenor veitir, en fyrirtækið er stuðningsaðili Norræna loftslagsdagsins. 

Skemmst er að minnast þess að þessi sami bekkur vann fyrr á árinu hina árlegu keppni "Varðliðar umhverfisins" sem Umhverfisráðuneytið efnir til á meðal skóla landsins.