Góð aðsókn að sýningarbási Fjallabyggðar á sjávarútvegssýningu

Frá básnum á sjávarútvegssýningunni.
Frá básnum á sjávarútvegssýningunni.
Góð aðsókn hefur verið að sýningarbási Fjallabyggðar á Íslensku sjávarútvegssýningunni í Smáranum í Kópavogi sem hófst í dag. Þar kynna nokkur fyrirtæki frá Siglufirði og Ólafsfirði afurðir sínar og þjónustu. Obex lausnir, Skiltagerð Norðurlands, Vélfag, Siglufjarðar Seigur, Kristbjörg ehf., JE Vélaverkstæði, SR vélaverkstæði og Fjallabyggðarhafnir kynna vörur sínar og þjónustu á sýningunni, en auk þess hefur verið boðið upp á reykta síld frá Egils síld á Siglufirði sem hefur vakið mikla lukku. Mesta athygli hefur þó flökunarvél Vélfags vakið, enda er hún hönnuð með það í huga að bæta nýtingu hráefnis, auka hreinlæti og útrýma hættu á tæringu í vélinni og íhlutum.