Góð gjöf til leikskóla á Íslandi

Kristín María Hlökk Karlsdóttir, Edda Sif Böðvarsdóttir, Ríkey Sigurbjörnsdóttir
Kristín María Hlökk Karlsdóttir, Edda Sif Böðvarsdóttir, Ríkey Sigurbjörnsdóttir

Góð gjöf til leikskóla á Íslandi

Í dag barst góð gjöf til Leikskóla Fjallabyggðar og fræðsluskrifstofu Fjallabyggðar frá Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðingi. Bryndís hefur starfað á Íslandi í rúmlega 30 ár sem talmeinafræðingur og í tilefni af þeim tímamótum ákvað hún að gefa námsefni sitt Lærum og leikum með hljóðin til allra leikskóla á Íslandi.

Um er að ræða heildstætt námsefni til að nýta í starfi með leikskólabörnum. Einnig fylgir gjöfinni aukaefni eins og púsl, límmiðar og vinnusvuntur með fallegum stafamyndum sem styðja við hljóðanámið og að auki fimm smáforrit fyrir iPad.

Nokkrir aðilar eru í samstarfi við Bryndísi og fyrirtæki hennar Raddlist og gera þessa gjöf mögulega en það eru Marel, Lýsi, Ikea og hjónin Björgólfur Thor og Kristín Ólafsdóttir.

Það er mikilvægt að leggja grunn að læsi frá unga aldri með áherslu á þá þætti sem rannsóknir sýna að skipta meginmáli fyrir framtíðarnám barnanna okkar. Lærum og leikum með hljóðin kennir framburð hljóða, hljóðvitund og bókstafi, þjálfar hljóðkerfisþætti, eykur orðaforða og hugtakaskilning, auk þess að gefa fyrirmynd að setningagerð og mörgum málfræðiþáttum íslenskunnar.

Bryndísi Guðmundsdóttur eru færðar kærar þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf sem koma mun að góðum notum í námi barna í Leikskóla Fjallabyggðar.

Það var Edda Sif Böðvarsdóttir sem kom á bæjarskrifstofuna ásamt foreldrum sínum og afhenti gjöfina fyrir hönd Bryndísar. Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála og Kristín María Hlökk Karlsdóttir aðstoðarleikskólastjóri tóku á móti gjöfinni.