Frístund, samþætt skóla- og frístundastarf í 1.-4. bekk hefur gengið mjög vel

FRÍSTUND, samþætt skóla- og frístundastarf fyrir nemendur í 1.-4.bekk hefur nú verið starfrækt í tvö skólaár. Um er að ræða samstarf grunnskólans, íþróttafélaga og tónlistarskólans.

Óhætt er að segja að starfið í Frístund hafi gengið mjög vel þrátt fyrir hnökra í upphafi. Með tímanum urðu nemendur og starfsfólk öruggari og skipulag liðkaðist. Í upphafi voru sett markmið með starfinu sem voru m.a. að efla og styðja við félagsleg tengsl og þroska nemenda, jafna möguleika þeirra til að stunda tómstundastarf, auka möguleika á félagsskap að loknum skóladegi og gefa börnum kost á að ljúka íþróttaæfingum og tónlistarnámi í beinu framhaldi af skóladegi.

Þá var eitt af upphaflegu markmiðum með starfinu að a.m.k. 90% nemenda nýtti sér Frístund. Því marki er nánast náð því á vorönninni sem nú er að ljúka eru 89% nemenda í 1.-4. bekk þátttakendur í Frístund. Þetta er mikil aukning því á fyrstu önninni, haustið 2017 var þátttakan 75%. Það er ekki síst starfsfólki grunnskólans, þjálfurum íþróttafélaga og kennurum í tónlistaskólanum að þakka hversu vel hefur tekist til. Allir hafa lagt sig fram um að gera starfið sem ánægjulegast og gagnlegast fyrir nemendur.

Börn sem sækja íþróttaæfingar hjá íþróttafélögum á Frístundartímanum greiða æfingargjöld til íþróttafélaganna og þau börn sem sækja tónlistar- eða söngnám í þessum tímum eru skráðir nemendur í tónlistarskólanum og greiða skólagjöld til hans. Að öðru leyti er starf í Frístund nemendum að kostnaðarlausu. Dæmi um viðfangsefni sem eru endurgjaldslaus er hópastarf og kórstarf hjá tónlistarskólanum, frjáls leikur, lestur á bókasafni, föndur, spil og sund.

Næsta haust er hugmyndin að breyta til í starfi Frístundar inni í skólanum, setja upp nokkurs konar hringekju eða valsvæði innan hvers dags og auka þannig fjölbreytni viðfangsefna. Þáttaka íþróttafélaga og tónlistarskólans er áætluð með svipuðu eða sama sniði og verið hefur.

Að lokinni Frístund fá börnin ávaxtabita áður en haldið er heim á leið eða farið í Lengda viðveru.

Það er mikið ánægjuefni hversu margir hafa nýtt sér starfið.

Á eftirfarandi mynd má sjá prósentuhlutfall nemenda sem nýta Frístund eftir bekkjum.