Fréttatilkynning frá bæjarráði Fjallabyggðar

Neðangreint erindi var tekið fyrir á 501. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þann 16. maí 2017.

Bókun bæjarráðs:
Bæjarráð hafnar beiðni forstjóra Heilbrigðisstofnunarinnar á Norðurlandi um aðkomu Slökkviliðs Fjallabyggðar við að koma á fót vettvangshópi í Ólafsfirði í kjölfar þess að vakt sjúkraflutningamanna verður lögð niður. Þetta verkefni er alfarið á ábyrgð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og því er það HSN að leysa þau verkefni sem tengjast heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisvaldsins í Fjallabyggð.

Bæjarráð mótmælir jafnframt harðlega þeirri þjónustuskerðingu sem fyrirhuguð er hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð. Bæjarráð telur óásættanlegt að vakt sjúkraflutningamanna í Ólafsfirði verði lögð niður. Jafnframt telur bæjarráð óásættanlegt að heilsugæslan í Ólafsfirði verði lokuð eftir hádegi yfir sumartímann. Ekki er einungis um að ræða skertan aðgang íbúa að heilsugæslu heldur einnig lengri afgreiðslufrest á lyfjum.
Bæjarráð hvetur forstjóra HSN til að leita annarra leiða svo ekki þurfi til þjónustuskerðingar að koma.