Fréttatilkynning

Víkingur Gunnarsson og Gunnar I. Birgisson
Víkingur Gunnarsson og Gunnar I. Birgisson

Bæjarfélagið Fjallabyggð og Arnarlax hf. undirrituðu í dag föstudaginn 21. júlí kl. 15:00 viljayfirlýsingu um samstarf og samvinnu um sjókvíaeldi í Eyjafirði/Ólafsfirði.

Arnarlax hf. og Fjallabyggð lýsa yfir vilja til að hefja samstarf um undirbúning og könnun á forsendum þess að setja upp starfstöð fyrirtækisins í Ólafsfirði, þ.e. bæði hafnaraðstöðu og eins aðstöðu í landi undir starfsemi Arnarlax hf. í Eyjafirði.

  • Hafnaraðstaða fyrir vinnubáta félagsins
  • Aðstaða fyrir biðkvíar og brunnbát
  • Húsnæði fyrir fóður og ýmsan eldisbúnað
  • Sláturhús og vinnsla

Arnarlax hf. hefur kynnt framkvæmdir í utanverðum Eyjafirði fyrir 10.000 tonna framleiðslu á laxi á ári.  Í lok ársins 2014 kynnti Fjarðalax áform um framkvæmdir innarlega í firðinum. Með kaupum Arnarlax hf. á Fjarðalaxi 2016 lýsir Arnarlax hf. yfir vilja til að endurskoða fyrri áform fyrirtækjanna í þeim tilgangi að skapa sátt til framtíðar um uppbyggingu á sjálfbæru laxeldi í Eyjafirði. Sátt með það að markmiði að stuðla að jafnvægi  milli umhverfislegra, efnahagslegra og samfélagslegra aðstæðna á svæðinu. Með það að leiðarljósi skoðar nú Arnarlax hf. umhverfisaðstæður við Ólafsfjörð í Eyjafirði í samstarfi við Fjallabyggð. Sérstaklega verða skoðaðar hugmyndir um að færa eldisstaði norðar í Eyjafirði þar sem útlit er fyrir mjög jákvæðar umhverfislegar aðstæður til framtíðar uppbyggingar og þróunar laxeldis á svæðinu.

Ef nauðsynleg leyfi fást til að hefja laxeldi í utanverðum Eyjafirði mun það hafa jákvæð samfélasleg áhrif og bæta lífsgæði íbúa svæðisins með beinum og óbeinum hætti. Verði að fyrirhuguðum áformum er ljóst að það mun skapa tugi starfa í Ólafsfirði og nágrenni. Hjá Arnarlaxi hf. starfa um 130 manns í seiðaeldisstöðvum, sjóeldi, vinnslu, sölu, markaðsmálum og yfirstjórn, auk tugi annarra starfa sem tengjast þjónustu við Arnarlax hf. með beinum eða óbeinum hætti. Störf í fiskeldi henta bæði konum og körlum með fjölbreytta menntun.

Undir viljayfirlýsinguna skrifuðu þeir Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar og Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax hf. 

Undirritun viljayfirlýsingar