Framkvæmdir í Fjallabyggð.

Nú er mikið um að vera í Fjallabyggð. Fyrir utan gangagerð milli byggðakjarnanna eru margir einstaklingar og fyrirtæki ásamt sveitarfélaginu að byggja, bæta, laga og snyrta eignir sínar og umhverfi.

 

Með þessum skrifum mínum langar mig að upplýsa íbúa Fjallabyggðar og aðra hvað er í gangi á vegum sveitarfélagsins. Hér kynni ég stöðu helstu verkefna.

Sundlaugin á Siglufirði: Skipt var um járn á þaki í fyrra. Nú í ár hefur loftið yfir lauginni verið einangrað og loftræsting lagfærð. Skipt hefur verið um loft fyrir ofan laugina og lýsing endurnýjuð. Áætlað er að setja upp nýtt myndeftirlitskerfi til að auka öryggi gesta og lagfæra húsnæðið betur að utan.

Sundlaugin í Ólafsfirði: Unnið er að hönnun svæðisins með áherslu á nýjan þreksal og vatnsrennibraut. Allt sundlaugarsvæðið verður endurskoðað og skipulagt.

Ráðhúsið á Siglufirði: Afgreiðslusalur á þriðju hæð hefur verið dúklagður og málaður. Einnig hafa verið keypt ný húsgögn. Í sumar verða svo gluggar á 2. og 3. hæð endurnýjaðir, húsið múrað og málað að því loknu. Verkinu á að ljúka í september.

Bókasafnið á Siglufirði: Arkitekt er að teikna nýja aðkomu í bókasafnið á 1. hæð og er gert ráð fyrir að inngangur í bókasafn verði um aðalinngang í ráðhúsið. Í framhaldi af því verður bókasafnið endurskipulagt.

Bæjarskrifstofurnar í Ólafsfirði: Aðstaða starfsmanna hefur verið endurnýjuð ásamt skrifstofurými á 2. hæð.

Tjarnarborg: Í haust verður farið í að endurnýja salerni og anddyri ástamt öðrum smærri framkvæmdum.

Leikskólinn Leikhólar Ólafsfirði: Smíði viðbyggingar er að mestu lokið. Unnið er að breytingum í eldra húsnæði. Ný girðing er á leiðinni og verður sett upp í águst eða september og síðan farið í lagfæringar á bílastæði og lóð.

Leikskólinn Leikskálar Siglufirði: Búið er að skipta út skyggni vestan við skólann. Á meðan á sumarlokun stendur verður skipt um öryggismottur á leiksvæðinu.

Grunnskóli Siglufjarðar – efra hús: Stefnt er að því að dúklagning á ganga og lagfæring á tröppum ljúki áður en skólastarf hefst.

Grunnskóli Ólafsfjarðar: Sett verður upp móttökueldhús í skólann og er búið að panta innréttingar og tæki. Breytingar hefjast fljótlega á eldhúsinu. Stefnt er að því að taka það í notkun þegar skólinn byrjar.

Skólalóðir Grunnskólanna: Unnið er að hönnun beggja skólalóðanna og vonandi lýkur því verki á árinu.

Leikvellir: Ákveðið hefur verið að endurnýja þrjá leikvelli í ár. Tvo á Siglufirði og einn í Ólafsfirði. Leikvellirnir sem verða endurnýjaðir eru við Fossveg, Laugarveg og Kirkjuveg. Búið er að hanna vellina og panta leiktæki.

Áhaldahús á Siglufirði og Aravíti: Búið er að mála Aravíti og áhaldahúsið. Stefnt er að frekari lagfæringum á árinu.

Gangstéttir: Lokið hefur verið við endurnýjun á mjög slæmum köflum austast í Aðalgötu á Siglufirði. Nú er unnið er að endurnýjun á tveim stöðum í Eyrargötu og verða kaflar nyrst í Suðurgötu endurnýjaðir seinna í sumar. Ýmsar lagfæringa á gangstéttaskemmdum hafa átt sér stað í Ólafsfirði

Námuvegur Ólafsfirði. Unnið er að malbikun og uppsetningu lýsingar frá gámasvæði upp á þjóðveg.

Brimnesvegur. Í áætlun sumarsins er gert ráð fyrir að malbika Brimnesveg og verður það gert samtímis malbikun á Námuvegi.

Norðurtún Siglufirði. Nú er unnið að fráveituviðgerðum og verður gatan malbikuð í sumar.

Suðurgata Siglufirði. Sett verður yfirlagning á hana frá torgi að Laugarvegi. Stefnt er að ljúka því fyrir verslunarmannahelgi.

Bátadokkin á Siglufirði. Unnið er að jarðvegsskiptum og stefnt að því að malbika fyrir verslunarmannahelgi. Hlaðinn verður kantur við grjótgarðinn og hellulagt milli malbiks og grjótgarðs.

Vegurinn að Hóli. Unnið er að uppbyggingu vegarins að Hóli og stækkun bílastæðis. Vinna við veginn á að vera lokið að mestu fyrir pæjumót þó svo ekki náist að malbika. Einnig er nú unnið að því að lagfæra veginn að flugvellinum.

Vegurinn upp að skíðaskála í Ólafsfirði verður lagfærður í ár og fær vonandi slitlag á næsta ári.

Vegurinn vestan við Ólafsfjarðarvatn verður lagfærður. Búið er að vatnsræsa hann og verður síðan borðið ofan í hann og hann heflaður á næstu dögum.

Hraðahindrun í Aðalgötu á Siglufirði hefur verið endurbyggð og verða fleiri hraðahindranir settar upp í Fjallabyggð á árinu.

Bílaplan við Ólafsfjarðarkirkju: Verkfræðistofa er að vinna við hönnun á bílastæðis við kirkjuna og safnaðarheimilið. Stefnt er að því að það verði tilbúið í haust.

Í Siglufjarðarhöfn er unnið að niðurrifum á úreltri bryggju (SR bryggju) sem var orðin hættuleg yfirferðar. ÍSTAK er verktakinn, en þeir sömdu við undirverktaka á Siglufirði um þá vinnu sem unnin hefur verið fram að þessu. Næstu skref eru þau að hingað kemur í september prammi með krana til að fjarlægja restarnar og verður þá jafnframt svæðið við Óskarsbryggju dýpkað.

Í Ólafsfjarðarhöfn verður farið í að grynnka og þrengja innsiglingu í vesturhöfn. Stefnt er að því að útboðsgögn verði tilbúin fljótlega og verkið boðið út í sumar eða haust.

Vatnsbólið í Hólsdal Siglufirði. Búið er að girða svæðið af. Farið verður í lagfæringar á stíflu og skemmdir eftir aurflóð sem féll 2006. Ekki er hægt að fara í þetta fyrr en á haustmánuðum þegar rennsli árinnar minnkar.

Miklar fráveitu og malbikunarframkvæmdir eru einnig í tengslum við svæði Rauðku.

Brúin yfir Fjarðará, við Kálfsá hefur verið í slæmu ástandi í mörg ár. Unnið er að lagfæringum á henni og verður þá hægt að skokka eða hjóla hringinn í kringum vatnið. Lýkur því verki fljótlega.

Brunavarnir: Unnið er að gerð útboðsgagna vegna brunavarna og brunakerfa í fasteignum sveitarfélagsins. Einnig er nýr slökkvibíll í smíðum fyrir Fjallabyggð og verður hann staðsettur á Siglufirði þegar hann kemur í byrjun næsta árs.

Snjóflóðavarnargarður fyrir ofan Hornbrekku í Ólafsfirði er í útboðsferli og hefjast framkvæmdir vonandi á þessu ári.

Unnið hefur verið við uppgræðslu snjóflóðvarnargarða á Siglufirði í sumar og er verið að planta 30.000 trjám í garðana. 10 til 15 manns hafa unnið við gróðursetninguna.

Til að auðvelda hundeigendum við að losa sig við hundaskít verða settar upp sérstakar tunnur á nokkrum stöðum á Siglufirði eins og gert hefur verið í Ólafsfirði.

Tæknideild hefur pantað stór blómaker sem koma á næstu dögum og verða sett upp á völdum stöðum í báðum byggðakjörnunum.

Fjöldinn allur af skiltum og merkingum hafa verið settar við opinbera staði. Enn á eftir setja upp fleiri merkingar á nokkra staði og lýkur því verki fljótlega.

Deiliskipulag fyrir nýjan framhaldsskóla hefur verið auglýst.

Deiliskipulag fyrir nýtt hesthúsahverfi í Ólafsfirði er í auglýsingaferli.

Hafin er vinna við nýtt aðalskipulag fyrir Fjallabyggð.

Eins og sjá má er mikið um að vera og næg verkefni fyrir verktaka. Njótið helgarinnar og sumarsins!

Þórir Kr. Þórisson,
bæjarstjóri.