Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð

Af http://www.dagur.net Skólinn veður settur á laggirnar. Skíða- og útilífsbraut og sjávarútvegsbraut freistandi kostir að mati fundarmanna í Dalvíkurskóla Framhaldsskóli verður settur á laggirnar við utanverðan Eyjafjörð, hann er kominn á fjárlög ríkisins og verður á forræði Héraðsnefndar Eyjafjarðar líkt og MA og VMA.  Það er aftur á móti spurning hvort hann byrjar starfsemi sína haustið 2009 eða 2010.  Áætlanir gera ráð fyrir að hann hefjist haustið 2009 hins vegar er ljóst að húsnæði á Ólafsfirði verður ekki komið fyrir þann tíma.   Eins eru allar líkur á að opnun Héðinsfjarðarganga seinki þannig að Siglfirðingar komast ekki til Ólafsfjarðar fyrst um sinn ef áætlanir um skólann ganga eftir“. Þetta sagði Jón Eggert Bragason á almennum fundi um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð sem haldinn var í Dalvíkurskóla sl. mánudagskvöld.  
Jón nefndi þá hugmynd að hefja starfsemina næsta haust á öllum þremur starfstöðvunum; Dalvík, Ólafsfirði, og Siglufirði, með einum framhaldsskólakennara á hverjum stað og framhaldið ráðist síðan að nokkru af framvindu bygginga-og samgöngumála. Hann sagði það ótvíræða stefnu Menntamálaráðuneytis að næsti framhadsskóli untan Reykjavíkursvæðisins yrði við utanverðan Eyjafjörð. Það væri hins vegar alfarið í höndum íbúa svæðisins að ákveða hvernig sá skóli liti út, hvað væri kennt og hvernig.  
Ný lög um framhaldsskóla gefi sveitarstjórnum nánast algerlega frjálsar hendur í þessum efnum.  Svo fremi sem menn hefðu skýra námsskrá og brautarlýsingu sem fengist samþykkt hjá ráðuneytinu gætu þeir stofnað framhaldsskóla.  Byggingarkosnaður við framhaldsskóla skiptist þannig milli ríkis og sveitarfélaga að ríkið greiðir 60% en sveitarfélögin 40% en rekstrarkostnaður er alfarið á höndum ríkisins þannig að því leyti er hér eftir nokkru að slægjast fyrir sveitarfélögin.

Fjölmennur fundur.
Fundurinn í Dalvíkurskóla var vel sóttur og sá fjölmennasti fram til þessa en áður hafa verið haldnir viðlíka umræðufundir á Ólafsfirði og Siglufirði. Almennt var jákvæður tónn meðal fundargesta og að lokinni hópavinnu voru reifaðar ýmsar hugmyndir varðandi námsframboð og fyrirkomulag skólans. Meðal umræðupunkta sem lagðir voru fyrir hópana var spurningin um hvað stofnunin ætti að heita. Upp komu nöfn eins og Tröllaskóli og Tröllaskagaskóli en einnig var stungið upp á að hann héti Drangur sem vísar til skipsins sem um langan aldur tengdi saman þessa þrjá þéttbýlisstaði við utanverðan Eyjafjörð. Varðandi tillögur að námsframboð var einhverskonar útilífsskóli með áherslu á skíðamennsku ofarlega í umræðunni með tengingu við starfsemi björgunarsveita, fjallaleiðsögn og ferðamennsku.  
Einnig var sjávarútvegs og fiskvinnslubraut ofarlega í hugum manna. Rætt var um að skóli sem þessi yrði að starfa í nánum tengslum við atvinnulífið og var í því sambandi rætt um starfsnám í tengslum við félagsþjónustuna. Almennt töldu menn að skólastarfið og kennslufyrirkomulag þyrfti að vera teygjanlegt og í nánu samstarfi við aðra framhaldsskóla á svæðinu en jafnframt aðlaðandi fyrir nemendur hvaðanæva að af landinu og jafnvel víðar. Varðandi staðsetningu skólans er ljóst að höfuðstöðvarnar verða á Ólafsfirði  en með nútíma fjarskiptatækni og bættum samgöngum töldu menn að starfsemin hlyti að dreifast nokkuð um svæpðið. 
Sem fyrr segir verður skólinn undir forsjá Héraðsnefndar Eyjafjarðar og skipar hún nefnd sem verður verkefnisstjóra til halds og trausts. Að hálfu Dalvíkurbyggðar hefur Anna Sigríður Hjaltadóttir verið skipuð í nefndina.