Foreldrar og forvarnir - miðvikudag kl. 20 í Tjarnarborg

Heimili og skóli fara i fræðslufundaherferð hringinn í kring um landið vikuna 7.-11. október í samvinnu við Vímulausa æsku – Foreldrahús.

Boðið verður upp á fjölbreytt fræðsluerindi fyrir foreldra um gildi og ávinning farsæls foreldrasamstarfs (þ.m.t. verður Foreldrasáttmálinn kynntur), SAFT (Samfélag, fjölskylda, tækni) fræðslu um netöryggi og ábyrga og jákvæða netnotkun barna og ungmenna auk þess sem foreldrar fá ráð sem styrkt geta sjálfstraust og ábyrgð þeirra í vímuefnaforvörnum. Einnig yrði fjallað um úrræði þegar í óefni er komið.

Foreldrasamstarf er ein besta forvörn sem völ er á og hafa rannsóknir sýnt að börnum foreldra sem sýna námi þeirra áhuga gengur betur í námi og standa betur að vígi félagslega. Fræðsluherferðin mun gefa foreldrum ýmis hagnýt ráð um uppeldi og foreldrahlutverkið og upplýsingar um ávinning farsæls foreldrasamstarfs og farsæl samskipti þeirra við skólastofnanir. SAFT fræðslan leggur áherslu á jákvæða, uppbyggilega og ábyrga netnotkun og útlistar þær ógnir sem verða a vegi barna og ungmenna á netinu og hvaða uppeldislegu viðmið sé gott fyrir foreldra í þeim efnum og fræðsla Vímulausrar æsku mun þar að auki taka vímuefnaforvarnir föstum tökum. Þannig mun fræðsluherferðin veita foreldrum í landinu öllu hagnýtar upplýsingar og uppeldisleg tæki börnum sínum til hagsbóta.

Fundurinn verður haldinn í Tjarnaborg miðvikudaginn 9. október kl. 20:00.

Allir foreldrar hvattir til að mæta.