Flutningur ríkisstofnana til Fjallabyggðar - Bréf til Ríkisstjórnar Íslands

Á 583. fundi Bæjarráðs Fjallabyggðar þann 27. nóvember sl. var samþykkt að senda bréf til oddvita ríkisstjórnarflokkanna, þar sem óskað er eftir því við Ríkisstjórn Íslands, að kannaðir verðir möguleikar á því að flytja ríkisstofnanir til Fjallabyggðar í þeim tilgangi að fjölga störfum og styrkja stöðu byggðarlagsins.

Fram kemur í bréfinu að landsbyggðin hafi lengi átt í vök að verjast varðandi fólksfækkun og fækkun starfa þó ekki eigi það við um svæði þar sem laxeldi í sjó og aukin ferðamennska hafa dafnað með tilheyrandi fjölgun starfa. Því sé hins vegar ekki fyrir að fara hér í Fjallabyggð.

Eftir opnun Héðinsfjarðarganga styrktist byggð í báðum byggðarkjörnum Fjallabyggðar, auknar fjárfestingar í líftækniiðnaði og ferðamennsku höfðu í för með sér fjölgun starfa í byggðarlaginu og íbúum fjölgaði en á undanförnum þremur árum hefur þessi þróun snúist við og íbúum og störfum hefur fækkað. Íbúum Fjallabyggðar hefur fækkað um 2% frá árinu 2015 þegar þeir voru 2045 en eru í dag einungis 2006.

Telur bæjarráð það mjög nauðsynlegt að fjölga störfum í byggðarlaginu og að ein leið til þess sé með flutningi ríkisfyrirtækja til Fjallabyggðar.

Bréfið er aðgengilegt til lestrar. Flutningur ríkisstofnana til Fjallabyggðar, bréf dagsett 27. nóvember 2018.