Flokkað plast í Fjallabyggð fer til endurvinnslu

Starfsmenn ÍGF við flokkunarfæribandið.
Starfsmenn ÍGF við flokkunarfæribandið.
Að gefnu tilefni birtum við eftirfarandi fréttatilkynningu frá Íslenska Gámafélaginu um flokkun á plasti.


Á dögunum var frétt í ríkissjónvarpinu um söfnun plasts. Þar kom fram að nær öllu plasti sem safnað væri á Akureyri væri brennt, annað hvort á Húsavík eða á Suðurnesjum. Jafnframt kom það fram að sama vandamál hefði komið upp hjá SORPU. Ástæðan sem gefin er fyrir þessum farvegi er sá að plastið sé einfaldlega of skítugt og þessvegna óhæft til endurvinnslu. Þessar upplýsingar koma eðlilega illa við neytendur sem telja sig vera að koma plastinu til endurvinnslu, þar sem það er brætt upp og notað á nýjan leik.

Af þessu tilefni er rétt að taka fram að öllu plasti sem safnað hefur verið hjá íbúum Fjallabyggðar hefur verið ekið suður til Reykjavíkur í flokkunarmiðstöð Íslenska Gámafélagsins í Gufunesi. Þar er farið í gegnum plastið, og annan endurvinnanlegan úrgang, og honum komið til endurvinnslu sem frekast er kostur. Mikilvægt er að hráefnin séu tiltölulega hrein og algerlega laus við matvæli. Þeir sem skola plastið og tryggja að vel sé frá því gengið geta verið öruggir um að það fari til endurvinnslu. Starfsmenn fyrirtækisins sjá til þess að flokka það sérstaklega og hlaða í gáma sem fara til endurvinnslu. Þess má geta að um 250% aukning hefur verið í útfluttu plasti hjá fyrirtækinu, enda eru viðskiptavinir okkar duglegir að skila til okkar góðu hráefni sem hægt er að endurvinna.