Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2022 samþykkt í bæjarstjórn

Á bæjarstjórnarfundi þann 15. desember 2021 fór fram seinni umræða um fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2022,  ásamt þriggja ára áætlun 2022 – 2025. Var áætlunin samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum. 

Samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 ber merki varkárni og yfirvegunar sem og þriggja ára áætlun sveitarfélagsins enda hafa áhrif Covid-19 faraldursins lítið látið undan og afleiðingar hans haft áhrif á rekstur sveitarfélagsins þó svo að þau séu um sumt minni en spár gerðu ráð fyrir. Árið 2021 hefur verið nokkuð krefjandi og líkur á að árið 2022 verði það einnig. Þrátt fyrir það er staða sveitarfélagsins sterk, skuldir litlar og innviðir öflugir. Í áætluninni er metnaðarfull framkvæmdaáætlun sem ber vitni um styrkleika sveitarfélagsins, sterka innviði og öflugt atvinnulíf. 

Í fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2022 er líkt og áður leitast við að bæta hag barnafjölskyldna og efla starfsemi sem snýr að börnum, ungmennum og eldri borgurum. Frístundastyrkir til barna fæddra 2004 - 2018 verða hækkaðir, sveitarfélagið bætir í styrk til UÍF vegna barna- og unglingastarfs og í leik- og grunnskóla verður fjármagn áfram sett í þróunarstarf. Unnið verður að því að efla sveitarfélagið sem aldursvænt samfélag m.a. með því að vinna að verkefni sem snýr að því að auka fjölbreytni í þjónustu við aldraða. Líkt og áður verður unnið að Heilsueflandi samfélagi og í anda þess verður áfram gjaldfrjálst í sund og rækt fyrir eldri borgara og öryrkja. Einnig verður áfram staðið að öflugri uppbyggingu innviða samfélagsins sem og viðhaldi eigna.

Almennt munu gjaldskrár hækka um 2,4% sem er nokkru minna en nýjasta þjóðhagsspá gerir ráð fyrir, í henni er gert ráð fyrir 3,3% hækkun verðlags á komandi ári.

Eftirfarandi eru helstu niðurstöður áætlunar:

Áætlaður rekstrarhagnaður bæjarsjóðs fyrir árið 2022 er 48 millj.kr. Rekstrarafkoma samstæðu, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, er áætluð jákvæð um 263,3 millj.kr. Útsvarsprósenta er 14.48% og álagningarprósenta fasteignagjalda helst óbreytt á milli ára. Skatttekjur ársins 2022 eru áætlaðar 1.542 millj.kr., en útkomuspá ársins 2021 er 1.415 millj.kr. Heildartekjur 2022 verða 3.432 millj.kr., en eru áætlaðar 3.205 millj.kr. í útgönguspá 2021. Gjöld ársins 2022 eru áætluð 3.167 millj.kr., en eru 2.961 millj.kr. fyrir árið 2021. Heildareignir sveitarfélagsins eru áætlaðar 6.122 millj.kr. og eigið fé er 3.985 millj.kr. eða 65% eiginfjárhlutfall. Skuldaviðmið bæjarsjóðs er áætlað 32,5% fyrir 2022. Vaxtaberandi skuldir eru 300 millj.kr., en voru 326 millj.kr. árið 2021. Veltufé frá rekstri er áætlað 372 millj.kr., sem eru 10,8% af rekstrartekjum.
Á komandi ári er áætlað að fjárfestingar nemi 617 millj.kr. og verða þær fjármagnaðar með handbæru fé.

Í framkvæmdaáætlun komandi árs bera eftirfarandi verkefni hæst:

  • Íþróttamiðstöðin á Siglufirði - viðbygging, bætt aðgengi fyrir fatlaða og nýir búningsklefar
  • Nýtt húsnæði fyrir félagsmiðstöðina NEON
  • Íþróttamiðstöð Ólafsfirði, endurnýjun búningsaðstöðu
  • Nýtt aðstöðuhús á tjaldsvæðið í Ólafsfirði
  • Umhverfisúrbætur á svæði vestan Óskarsbryggju á Siglufirði
  • Bætt umferðaröryggi og ásýnd Aðalgötu í Ólafsfirði
  • Gatnagerð og malbikun nýrra gatna á Siglufirði og í Ólafsfirði
  • Áframhald úrbóta á frárennsliskerfi beggja byggðarkjarna
  • Áframhald endurnýjunar götulýsingar, LED-væðing
  • Endurnýjun gangstétta og gerð nýrra göngustíga

Breytingar á gjaldaliðum fasteignagjalda verða með eftirfarandi hætti:

Fasteignaskattur fyrir íbúðarhúsnæði A-flokkur verður óbreyttur í 0,48. Gjalddagar fasteignagjalda verða áfram tíu, febrúar til nóvember.

Afsláttur á fasteignaskatti fyrir eldri borgara og öryrkja verður óbreyttur 70.000 kr.-  Einnig verða tekjuviðmið vegna afsláttar á fasteignaskatti fyrir eldri borgara og öryrkja hækkuð um verðlagsþróun.

Spurningum svarar: 
Elías Pétursson, bæjarstjóri 
elias@fjallabyggd, 892 0989 

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2022 - samantekt A og B hluta

Fréttatilkynning vegna fjárhagsáætlunar 2022