Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2020

Bæjarstjórn samþykkti fjárhagsáætlun 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023 við síðari umræðu sem fram fór 13. desember sl.

Rekstur bæjarsjóðs Fjallabyggðar stendur traustum fótum. Aðhald og ráðdeild í rekstri skila rekstrarafgangi upp á 257 m.kr. og veltufé frá rekstri upp á 550 mkr. sem gerir bæjarsjóði kleift að hafa hátt framkvæmdarstig og greiða niður vaxtaberandi skuldir um 115 m.kr. á árinu 2020. Á næsta ári er reiknað með að ljúka við stærsta umhverfismál byggðarlagsins, það er að segja holræsaútrásir og dælubrunna í báðum byggðarkjörnum.

Af mörgu er að taka í áætluninni. Gert er ráð fyrir 1. áfanga af 3 vegna gervigrasvallar í Ólafsfirði og 1. áfanga á viðbyggingu vegna breytinga á aðgengi og aðstöðu í íþróttamiðstöð á Siglufirði. Áfram verður unnið að Heilsueflandi samfélagi og í anda þess verður áfram gjaldfrjálst í sund og rækt fyrir eldri borgara og öryrkja, frístundastyrkur til barna og unglinga verður hækkaður úr 32.500 kr. í 35.000 kr. og styrkur vegna barna- og unglingastarfs til UÍF verður hækkaður um milljón. Á árinu 2020 verður lokið við leikskólalóðina í Ólafsfirði. Verð á skólamáltíðum helst óbreytt í krónum talið á milli ára, þrátt fyrir vísitöluhækkun.

Breytingar á gjaldaliðum fasteignagjalda verða með eftirfarandi hætti:

Vatnsskattur verður lækkaður í 0,29% úr 0,31% og holræsagjald verður lækkað í 0,29% úr 0,32%. Gjalddagar fasteignagjalda verða áfram tíu, febrúar til nóvember.

Hér má sjá samanburð á fasteignagjöldum milli ára á eignum í Fjallabyggð. Álagningin fer eftir fasteignamati hverrar eignar fyrir sig og því er álagning mismunandi þó eignir í sama flokki séu svipaðar að stærð. (Klikkið á myndina til að stækka hana).

Samkvæmt skýrslu Þjóðskrár Íslands um Fasteignamat 2020 sem gefin var út í nóvember 2019 skal Þjóðskrá Íslands endurmeta fasteignamat 31. maí ár hvert miðað við gangverð fasteigna eins og það var í næstliðnum febrúar. Fasteignamat 2020 miðast því við verðlag fasteigna í febrúar 2019 og tekur gildi 31.05.2019.

Í Fjallabyggð er meðaltals hækkun á fasteignamati á íbúðarhúsnæði 4,2% þar af er sérbýli að hækka að meðaltali um 2,5% og fjölbýli um 18,8%.

Afsláttur af fasteignaskatti fyrir eldriborgara og öryrkja verður óbreyttur 70.000 kr. Tekjuviðmið vegna afsláttar af fasteignaskatti fyrir eldriborgara og öryrkja verða hækkuð verulega og verða sem hér segir:

Fjárfestingar næsta árs eru áætlaðar 441 m.kr. þar sem aðaláherslur eru:

a) Íþróttamiðstöð Siglufjarðar endurbætur (125m.) 
b) Gervigrasvöllur Ólafsfirði (75m.)
c) Lóðir Leikhóla og Tjarnarborgar (60m.)
d) Malbiksyfirlagnir (45m)
e) Holræsakerfi, útrásir og endurnýjun lagna í götum (77m)
f) Göngustígar og gangstéttar (15m)
g) Götulýsing - endurnýjun í LED (12m).

Helstu viðhaldsverkefni á fasteignum Fjallabyggðar eru klæðning á norðurhlið ráðhúss Fjallabyggðar, viðhald á húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga, viðhaldsverkefni á Skálarhlíð ásamt smærri viðhaldsverkefnum á öðrum eignum.

Reiknað er með eftirfarandi forsendum í áætluninni :

 1. Óbreyttri útsvarsprósentu 14,48% og óbreyttri álagningarprósentu fasteignagjalda.
 2. Hækkun þjónustugjalda á milli ára – Ekki hærri en 2,5%
 3. Verðbólgu samkvæmt þjóðhagsspá 2,6%
 4. Holræsaskattur lækkar um rúmlega 10% og vatnsskattur lækkar um tæplega 7%
 5. Frístundastyrkur til barna 4 – 18 ára verður hækkaður um tæplega 7,7%
 6. Skuldahlutfall bæjarsjóðs er áætlað 66,2%
 7. Tekjuviðmið vegna afsláttar aldraðra og öryrkja hækka á einstaklinga um rúmlega 5% og á hjón/sambýlisfólk er hækkun um 4,2%.
 8. Gert er ráð fyrir heildartekjum að upphæð 3.002 m.kr.
 9. Rekstrarafgangur A hluta, Aðalsjóðs, Eignasjóðs og Þjónustumiðstöðvar er áætlaður 162 m.kr.
 10. Rekstrarafgangur A og B hluta er áætlaður 257 m.kr.
 11. Veltufé frá rekstri er 550 m.kr. eða 18,3%.
 12. Greidd verða niður vaxtaberandi lán bæjarsjóðs upp á 115 m.kr. og verða vaxtaberandi skuldir um 365 m.kr. í lok ársins.