Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2019

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti fjárhagsáætlun 2019 og þriggja ára áætlun 2020-2022 við síðari umræðu sem fram fór 29. nóvember sl.

Rekstur bæjarsjóðs Fjallabyggðar stendur traustum fótum. Aðhald og ráðdeild í rekstri skila rekstrarafgangi upp á 258 mkr. og veltufé frá rekstri upp á 546 mkr. sem gerir bæjarsjóði kleift að hafa hátt framkvæmdarstig og greiða niður vaxtaberandi skuldir um 150 mkr. á árinu 2019. Á næsta ári er reiknað með að ljúka við stærsta umhverfismál byggðalagsins það er að segja holræsaútrásir og dælubrunna í báðum byggðakjörnum.

Af mörgu er að taka í áætluninni en m.a. er brugðist við ákalli íbúa um lengri opnunartíma í íþróttamiðstöðvum um helgar. Sett verða upp tjöld í báðum íþróttahúsum til þess að fjölga völlum og auka þannig nýtingu og notkunarmöguleika. Einnig er gert ráð fyrir hönnun á gervigrasvelli í Ólafsfirði og hönnun vegna breytinga á aðgengi og aðstöðu í Íþróttamiðstöð á Siglufirði.

Áfram verður unnið að Heilsueflandi samfélagi og í anda þess verður gjaldfrjálst í sund og rækt fyrir eldri borgara og öryrkja, frístundastyrkur til barna- og unglinga verður hækkaður úr 30.000 kr. í 32.500 kr. og styrkur vegna barna- og unglingastarfs til UÍF verður hækkaður um milljón.

Á árinu 2019 lýkur framkvæmdum við leikskóla- og grunnskólalóðir sveitarfélagsins, en tekin var ákvörðun um að ljúka 2. og 3. áfanga skólalóðar grunnskólans í Ólafsfirði.

Systkinaafsláttur verður aukinn í leikskóla fyrir 2. barn úr 30% í 50% og 3. barn úr 50% í 75%. Einnig verður systkinaafsláttur tengdur milli skólastiga, það er leikskóla og lengdrar viðveru í grunnskóla með sama hætti.

Verð á skólamáltíðum helst óbreytt í krónum talið á milli ára, þrátt fyrir vísitöluhækkun.

Breytingar á gjaldaliðum fasteignagjalda verða með eftirfarandi hætti:

Vatnsskattur verður lækkaður í 0,31% úr 0,35% og holræsagjald verður lækkað í 0,32% úr 0,36%. Það er hins vegar ljóst að fasteignamat í Fjallabyggð hækkar að meðaltali um 14,6% á milli áranna 2018 og 2019 sem hefur áhrif á fasteignagjöld til hækkunar. Þjóðskrá Íslands tilkynnir fasteignamat í júní ár hvert sem tekur gildi 31. desember það sama ár. Fasteignamat reiknast út frá meðaltali þinglýstra kaupsamninga vegna sölu fasteigna í Fjallabyggð frá febrúar til febrúar ár hvert.

Hér má sjá samanburð á fasteignagjöldum milli ára á eignum í Fjallabyggð. Álagningin fer eftir fasteignamati hverrar eignar fyrir sig og því er álagning mismunandi þó eignir í sama flokki séu svipaðar að stærð. (Klikkið á myndina til að stækka hana).

 

 Gjalddögum fasteignagjalda verður fjölgað í tíu í stað átta til samræmis við nágrannasveitarfélög.

Afsláttur á fasteignaskatti fyrir eldri borgara og öryrkja verður hækkaður í 70.000 kr. úr 65.000 kr. 
Einnig verða tekjuviðmið vegna afsláttar á fasteignaskatti fyrir eldri borgara og öryrkja hækkuð verulega og verða sem hér segir:

Helstu viðhaldsverkefni á fasteignum Fjallabyggðar eru endurnýjun á innanhússklæðningu í íþróttahúsi á Siglufirði, utanhússviðgerðir á Ráðhúsi, viðhald á húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga, viðhald á slökkvistöð í Ólafsfirði auk viðhaldsverkefna innanhúss á félagslegu leiguhúsnæði í báðum byggðakjörnum. 
Í Skálarhlíð verður bætt við íbúð sem tilbúin verður til úthlutunar um mitt næsta ár.

Reiknað er með eftirfarandi forsendum í áætlunni:

Áætlaður rekstrarafgangur bæjarsjóðs fyrir árið 2019 er 258 mkr.

  1. Útsvarsprósenta er 14.48% og álagningarprósenta fasteignagjalda er óbreytt á milli ára.
  2. Skatttekjur ársins 2019 eru áætlaðar 1.270 mkr., en útkomuspá ársins 2018 er 1.212 mkr.
  3. Heildartekjur 2019 verða 2.913 mkr., en eru áætlaðar 2.731 mkr. í útgönguspá 2018.
  4. Gjöld ársins 2019 eru áætluð 2.632 mkr., en eru áætluð 2.570 mkr. fyrir árið 2018.
  5. Heildareignir sveitarfélagsins eru áætlaðar 5.402 mkr. og eigið fé er áætlað 3.319 mkr. eða 61% eiginfjárhlutfall.
  6. Skuldaviðmið bæjarsjóðs er áætlað 63,1% fyrir 2019.
  7. Vaxtaberandi skuldir eru 375 mkr., en voru 478 mkr. árið 2018. Gert er ráð fyrir að greiða aukalega 100mkr. inn á skuldir á árinu 2019 vegna láns sem varð að taka vegna lífeyrisskuldbindinga v. Brúar. Eftirstöðvar þessa láns verða 80 mkr.
  8. Veltufé frá rekstri er áætlað 546 mkr., sem eru 18,7% af rekstrartekjum.

Framkvæmt verður fyrir 361,5 mkr. á árinu og eru helstu framkvæmdir:

a) Skólalóðir leikskóla og grunnskóla 72 mkr.
b) Yfirlagnir malbiks og gatna 47 mkr.
c) Holræsa- og vatnsveitukerfi 148 mkr.
d) Viðhald húseigna um 50 mkr.
e) Göngustígar og gangstéttir 15 mkr.

Meirihluti bæjarstjórnar þakkar bæjarstjóra og öðru starfsfólki bæjarfélagsins fyrir þeirra aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar og ánægjulegt samstarf.