Fjárhagsáætlun 2006 afgreidd í bæjarstjórn.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2006 var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn Siglufjarðar í gær. Áætlunin gerir ráð fyrir um 2,7 milljóna króna halla á öllum sjóðum en gert er ráð fyrir um tveggja milljóna króna afgangi af A-hluta (Aðalsjóður, Eignasjóður og Þjónustumiðstöð). Áætlað er að halli verði á Hafnarsjóði og Íbúðasjóði í B-hluta og er samanlagður halli á B-hluta áætlaður um 4,7 milljónir króna.Verulegar framkvæmdir eru áætlaðar á árinu 2006, samtals fyrir um 83 milljónir króna. Ber þar hæst gatnaframkvæmdir fyrir um 42 milljónir. Jafnframt eru áætlaðar endurbætur á Sundhöll og Íþróttahúsi fyrir um 15 milljónir og framkvæmdir við Frístundabyggð austan fjarðar fyrir um 15 milljónir. Framkvæmdir við Frístundabyggð ráðast þó af eftirspurn eftir lóðum á svæðinu en áætlað er að auglýsa lóðir þar innan skamms.Aðrar framkvæmdir eru nauðsynlegar framkvæmdir við höfnina og vatnsveitu auk endurbóta á húsnæði.Fjárhagsáætlun ársins er hægt að nálgast á bæjarskrifstofu og helstu tölur úr fundargerðum.