Ferðamenn í Fjallabyggð 2004 - 2013

Mynd: Áætlaður fjöldi erlendra ferðamanna í Fjallabyggð eftir mánuðum 2013, 2010 og 2004
Mynd: Áætlaður fjöldi erlendra ferðamanna í Fjallabyggð eftir mánuðum 2013, 2010 og 2004
Fyrr á árinu samþykkti bæjarráð að kaupa úttekt á komum ferðamanna til Fjallabyggðar frá árinu 2004 til ársins 2013 af fyrirtækinu Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. (RRF) 
Niðurstöður þessarar úttektar voru kynntar á fundi markaðs- og menningarnefndar í gær. 
Helstu niðurstöður eru þessar:
- Áætlað  er  að  innlendum  ferðamönnum  í  Fjallabyggð,  þ.e.  til  Siglufjarðar  eða  Ólafsfjarðar,  hafi fjölgað  úr  44  þúsund  árið  2004  í  63 þúsund  árið  2013  (nær  öll  aukningin  frá  2010).  Þá  er niðurstaðan  sú  að  erlendum  ferðamönnum  þangað  fjölgaði  úr  15  þúsund  í  36 þúsund  á  sama tímabili.

- Alls  er  áætlað  að  um  100  þúsund  ferðamenn  hafi  komið  í  Fjallabyggð  árið  2013,  sem  er  68% aukning frá árinu 2004 og 50% aukning frá árinu 2010. 

- Áætlað er að Íslendingum sem komu í sveitarfélagið  hafi fjölgað um 40% frá 2010 og  erlendum ferðamönnum  um 71%. Árið 2004 voru 25% af gestum  í Fjallabyggð erlendir ferðamenn en  36% árið  2013,  þrátt  fyrir  mikla  fjölgun  landsmanna  þangað  með  tilkomu Héðinsfjarðarganga.  Allar líkur eru á að innan fárra ára komi fleiri erlendir ferðamenn en Íslendingar í Fjallabyggð.

- Ferðamenn frá Mið-Evrópu (mest Þjóðverjar, en einnig Svisslendingar, Austurríkismenn o.fl.) eru áberandi stærsti hópur erlenda gesta í Fjallabyggð. Verulegur meirihluti erlendra gesta kemur á bílaleigubíl  (á eigin vegum eða "self drive"),  talsvert stór  hluti  á eigin bíl (farþegar með Norrænu) en færri í skipulagðri hópferð eða með áætlunarbílum. 

Fráviksmörk í þessari úttekt eru nokkur en niðurstöðurnar gefa enga að síður góða mynd af þeirri þróun sem er í komum ferðamanna til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og hversu mikla þýðingu Héðinsfjarðargöng hafa haft á aukin ferðamannastraum til Fjallabyggðar..

Skýrslu RFF er hægt að nálgast með því að smella hér.


Mynd úr skýrslunni sem sýnir áætlaðan fjölda og hlutfall erlendra og innlendra ferðamanna í Fjallabyggð 2004, 2010 og 2013.