Farsælt samstarf VÍS og Fjallabyggðar

Undanfarin ár hefur Siglufjarðarkaupstaður, nú Fjallabyggð, og Vátryggingafélag Íslands, VÍS, átt farsælt samstarf um tryggingavernd sveitafélagsins.   Uppgjör samnings sem var undirritaður árið 2005 fór fram í dag og endurgreiddi VÍS Fjallabyggð rúmar þrjár milljónir króna í ágóðahlut vegna samningsins.  


„Það segir sig sjálft að svona há ágóðahlutdeild þýðir að sveitarfélagið Fjallabyggð hefur verið farsælt hvað varðar tjón og rekstur. Gjarnan fer saman gott starfsfólk og góður rekstur og því einsýnt að sveitarfélagið hefur á að skipa góðu fólki“ sagði Guðmundur Örn, forstjóri VÍS við uppgjör samningsins.

VÍS hefur á hverjum tíma boðið sveitarfélaginu samkeppnishæf verð og hin seinni ár hafa verið gerðir samningar um tryggingavernd til nokkurra ára með möguleika á svokallaðri ágóðahlutdeild til handa sveitarfélaginu í lok samningstímans.