Ertu klár í Útsvar ?

Fjallabyggð hefur enn á ný borist boð frá RÚV um að senda lið til keppni í árlegann sjónvarpsþátt þar sem 24 sveitarfélög keppa sín á milli í spurningaleik. Þau átta lið sem komust í fjórðungsúrslit síðasta vetur eru sjálfskrafa með þennan veturinn. Hin sextán voru dregin út eftir stærð sveitarfélaganna og Fjallabyggð var eitt þeirra sveitarfélaga sem var dregið úr pottinum fyrir komandi vetur. Þetta árið hefst keppni föstudaginn 9. september n.k. 

Nú þarf að manna nýtt lið og því er kallað eftir tilnefningum. Líkt og flestir vita þurfa liðsmenn að búa yfir töluverðri þekkingu um allt á milli himins og jarðar og einnig því sem getur flokkast undir gagnslausar upplýsingar ("useless information") og svo þurfa liðsmenn að vera skemmtilegir og taka sig ekki allt of alvarlega. 

Ef þú veist um einhvern gáfaðan og skemmtilegan einstakling sem ætti heima í Útsvarsliði bæjarins þá vinsamlegast sendið tilnefningar á netfangið lindalea@fjallabyggd.is fyrir miðvikudaginn, 17. ágúst nk.