Löggæslumál í Fjallabyggð

Löggæslumál í Fjallabyggð
Bæjaryfirvöld hafa rökstuddan grun um að neysla og sala fíkniefna fari fram í sveitarfélaginu og sé í þeim mæli að full ástæða sé að grípa til aðgerða. Af þessu tilefni átti bæjarstjóri á dögunum fund með yfirlögregluþjóni á Akureyri og var minnisblað um fundinn lagt fram á fundi bæjarráðs 5. ágúst sl.
Samkvæmt bókun fundarins leggur bæjarráð áherslu á að gert verði átak gegn fíkniefnasölu í sveitafélaginu í þeim tilgangi að girða fyrir að þar verði griðastaður fyrir fíkniefnasala. 

Bæjaryfirvöld vilja leita allra leiða til að sporna við þessari óheillavænlegu þróun og tryggja þar með íbúum sveitafélagsins öruggt umhverfi. Af þessu tilefni skal bent á að virkasta aðhaldið felist í árvekni íbúanna sjálfra og ekki síst foreldra.
Því eru íbúar hvattir til vera á varðbergi að koma ábendingum á framfæri til lögreglu telji þeir sig búa yfir upplýsingum um fíkniefnaneyslu eða sölu.
Símanúmer er 8005005, en þar er um að ræða talhólf sem unnt er að lesa inn upplýsingar án þess að segja til nafns. Þá er einnig hægt að koma upplýsingum á framfæri á netfangið info@rls.is en fullrar nafnleyndar er heitið. Jafnframt munu bæjaryfirvöld fylgja málum eftir bestu getu og heimildum

Bæjaryfirvöld stefna að því sem fyrst að halda íbúafund um málið þar sem sérfræðingur frá lögreglu upplýsir íbúana um helstu einkenni fíkniefna og reynslu lögreglu af því að takast á við slík mál. Þá er áformað að seta á fót teymi fagfólks sem sérstaklega hefur þetta mál á sinni könnu og mótar frekari viðbrögð.

Bæjarstjóri Fjallabyggðar