Elsa Guðrún íþróttamaður ársins í Fjallabyggð þriðja árið í röð

Val á íþróttamanni ársins í Fjallabyggð fór fram í kvöld föstudaginn 28. desember og var það skíðagöngukonan Elsa Guðrún Jónsdóttir frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar sem var valin íþróttamaður ársins í Fjallabyggð. Er það þriðja árið í röð sem hún hlýtur þann titil. 

Elsa Guðrún stóð sig vel á göngubrautinni á árinu en hápunkturinn hennar var án efa þátttaka hennar á Vetrarólympíuleikunum sem fram fóru í PyeongChang í Suður Kóreu í febrúar sl. Elsa Guðrún var fyrst íslenskra kvenna til að keppa í skíðagöngu á Ólympíuleikum þegar hún keppti í 10 kílómetra göngu á leikunum. 

Athöfnin fór fram í Tjarnarborg og eru það Kiwanisklúbburinn Skjöldur í Fjallabyggð og Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar sem standa saman að valinu.

Við óskum Elsu Guðrúnu til hamingju!