Elías Þorvaldsson útnefndur Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2020

Mynd: Magnús Ólafsson
Mynd: Magnús Ólafsson

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt á fundi sínum fimmtudaginn 5. desember 2019 að útnefna Elías Þorvaldsson sem Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2020.

Elías Þorvaldsson er Siglfirðingur fæddur 24. maí 1948, sonur hjónanna Þorvaldar Þorleifssonar og Líneyjar Elíasdóttur, yngstur þriggja systkina. Hann stundaði nám við Barnaskólann og Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og einnig Iðnskólann á Siglufirði.

Tónlistin heillaði hann alla tíð og hófst hans tónlistarnám á Siglufirði fyrst þegar hann var níu ára gamall. Lagði hann stund á nám í píanóleik, þverflautu og fiðlu hjá ýmsum góðum kennurum og má þar sérstaklega nefna Sigursvein D. Kristinsson og Gerhard Schmidt.

Elías fór fyrst að kenna tónlist á Siglufirði á vegum verkalýðsfélaganna á árunum 1972-1975 og hóf svo kennslu við Tónlistarskóla Siglufjarðar frá stofnun hans árið 1975 allt til ársins 2010. Þá var Elías skólastjóri sama skóla frá árinu 1977 til 2010 og aðstoðarskólastjóri Tónskóla Fjallabyggðar á árunum 2010 til 2016 er hann lét af störfum eftir rúmlega 40 ára samfelldan starfsferill. Elías kenndi einnig tónmennt við Grunnskóla Siglufjarðar til fjölda ára og þá sinnti hann enskukennslu í efri bekkjum grunnskólans í nokkur ár.

Elías útskrifaðist sem grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1992, með ensku sem valgrein, en lokaritgerð hans nefndist "Tónlist og tungumálanám."

Hann lék með hljómsveitinni Gautum í hartnær þrjá áratugi og tók ásamt hljómsveitinni þátt í "Vísis-ævintýrinu" með tilheyrandi plötuupptökum, tónleikum og ferðalögum meðal annars til Danmerkur og Frakklands undir stjórn hins frábæra kórstjóra og tónlistarmanns Gerhards Schmidt.

Elías hefur í fjöldamörg ár stjórnað, meðleikið og útsett hjá mörgum kórum, sönghópum og hljóðfærahópum. Má þar meðal annars nefna kvennakóra, Barnakór grunnskólans og Karlakór Siglufjarðar. Elías er núverandi stjórnandi Karlakórsins í Fjallabyggð.

Þá eru ótaldir ýmsir samspilshópar sem hann hefur haft umsjón með, til dæmis Harmonikkusveit Siglufjarðar sem lengi var mjög virkur félagsskapur.

Þá hefur Elías útsett og samið fjöldann allan af tónlist og verið leiðbeinandi á fjölmörgum námskeiðum tengdum tónlist og hljóðfæraleik.

Óskum við Elíasi innilega til hamingju með nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2020.

Útnefningin fer fram í Menningarhúsinu Tjarnarborg fimmtudaginn 23. janúar 2020  kl. 18:00.
Við sama tilefni verða afhentir styrkir til menningarmála fyrir árið 2020.

Þó nokkrar tilnefningar bárust og þakkar markaðs- og menningarnefnd kærlega fyrir þær.