Eftir vatnsflóð - Ráðleggingar frá NMI

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur gefið út ráðleggingar við því hvernig skuli bregðast við vatnsflóðum. Þær eru eftirfarandi:

Af öllum efnum náttúrunnar er VATN líklegast til að hafa mest skemmdaráhrif á umhverfi innanhúss.

Ofgnótt raka eða flóð geta valdið gríðarlega miklum skemmdum á byggingar og eignir. Ef vatnið er óhreint eða hreingerningum seinkar, getur vatnstjónið orðið enn verra.

Mikilvægt er að hreingerning og þurrkun húsa og híbýla eigi sér stað sem allra fyrst eftir vatnstjón.
Sérstök gætni er nauðsynleg varðandi rafkerfi vistarverunnar. Ráðlegt getur verið að hafa aðeins hluta virkan; það má gera með því að slá út öryggjum á blautum svæðum.

Annar mikilvægur þáttur er að fara yfir stöðu burðarkerfi hússins; athuga hvort burðarbitar eða berandi hlutar hafi orðið fyrir veikjandi áhrifum vatnsins og gaumgæfa hvort lagnaumherfi hefur blotnað sem getur valdið tæringu lagna.

Fyrstu viðbrögð eftir flóð þar sem vatn hefur runnið vegna stórrigninga í fjöllum eins og gerðist í Fjallabyggð er að fjarlægja sem mest af blautu eða vatnssósa lausu efni. Þetta á við um gólfefni (parket), gluggatjöld, svefnherbergisdýnur og sængur, lausa bókaskápa o.þ.h..
Þegar ofangreint hefur verið fjarlægt og komið fyrir í þurrkun er hægt að einbeita sér að fastari hlutum í íbúðinni. Huga þarf að því að myglusveppir geta myndast á bak við veggplötur, í gipsplötum, i gólfdúkum og þannig mætti lengi telja.

Mælt er með því að gólfdúkar og filtefni sem orðið hafa fyrir miklu vatni um tíma, séu fjarlægðir.
Hafi fólk geymt muni í pappakössum eða svipuðum hirslum er nauðsynlegt að fjarlægja munina til þurrkunar og farga umbúðunum.

Þegar gengið hefur verið úr skugga um að rennblaut efni i í veggjum og gólfum hafi verið fjarlægðer hægt að byrja að nota þurrkvélar (dehumidfier) og jafnvel loftblásara til þess að þurrka frekar. Oft hafa þessar vélar betri nýtni við það að lofthiti sé hár. Mælt er með því að hafa lofthita sem hæstan til þess að þurrkunin takist sem best. Ef þurrt er í veðri og unnt að láta vind leika um híbýlið getur það verið gagnlegt við þurrkunina og loftræsting er alltaf til bóta og hjálpar til.

Gæta þarf sérstaklega að því að ef vatn úr niðurföllum (skolp) er hluti af hinu mengandi vatni þarf að nota hanska við hvers kyns viðgerðir og hreingerningar.

Nýsköpunarmiðstöð hvetur íbúa Fjallabyggðar til að vera í góðu sambandi við tryggingafélög sín sem eru með góða þjónustu um upplýsingar í þessum efnum.

Ráðleggingar á pdf-formati