Dóbía af öðrum heimi

Brák Jónsdóttir, í samstarfi við Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, er skipuleggjandi verkefnisins sem stendur frá 12. - 15. nóvember 2015, í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Sextán listamenn vinna að ólíkum miðlum, til að skapa ímyndaðan hugarheim út frá smásögu eftir Viktoríu Blöndal, sögumann sýningarinnar.
Opnun verður laugardaginn 14. nóvember (frá kl. 16.00 - 20.00) og verður sýningargestum boðið að upplifa margþættan og kyngimagnaðan túr um Dóbíuna. Athugið að sýningin stendur aðeins þennan eina eftirmiðdag.

Dóbía af öðrum heimi
Ég hef komist að því að duftið sem ég geymi í hjartanu mínu er orðið að steini. Átti það að gerast? Ekki man ég sérstaklega eftir að hafa lesið um það í rauðu seríunum sem lágu eins og dauðir selir um allan bústaðinn. Hvernig má það vera að mér hafi yfirsérst þetta. Ætli fíflavínið hafi átt þátt í því? Líklega.
Í fyrradag heyrði ég um konu sem átti átta pelsa úr kanínu og otraskinni. Hún gekk um snjóinn eins og valkyrja. Mikið öfundaði ég hana. Ég man að ég hugsaði sem barn að ég ætlaði mér að komast yfir klæði sem þessi. Svo varð ég stór og stal skinnpels úr pulsusjoppu niðrí bæ. Pelshræið var líkast til úr skinninu af gömlum ketti, lyktina var allavegana sætkennd, rauðleit og stæk.
Eina ósk á ég mér, það er það að komast á hinn endann, áður en klukkan slær lífið. Hversdagurinn. Af hverju þarf ég alltaf að mæta þessu fólki? Öllu þessu fólki sem ætlar sér eitthvað. Því ekki ætla ég mér lönd né strönd, ekkert útstáelsi eða húllumhæ mun leika um mínar lendur, nei ég ætla mér ekkert. Látið mig nú sem snöggvast vera og leyfið mér bara að vera. Bæbæ draumur. Hæhæ geimur. (Texti: Viktoría Blöndal)

Verkefnið er styrkt af:

- Alþýðuhúsið á Siglufirði
- Sóknaráætlun Norðurlands Eystra
- Fjallabyggð
- Fiskbúðin á Siglufirði

Dóbía af öðrum heimi