Dagur leikskólans 6. febrúar

Leikskálar í vetrarbúningi
Leikskálar í vetrarbúningi

Dagur leikskólans er 6. febrúar en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Þar sem 6. febrúar er laugardagur var ákveðið að halda dag leikskólans hátíðlegan föstudaginn 5. febrúar að þessu sinni.

Í Leikskóla Fjallabyggðar höfum við oftast minnt á okkur þennan dag með því að fá okkur göngutúr í bæinn. Stundum með einhver listaverk meðferðis sem við höfum fengið að hengja upp á fjölförnum stöðum eða þá að við höfum tekið lagið fyrir vegfarendur. Í dag viðrar ekki til útiveru fyrir ungana okkar svo við höfum það bara notalegt innandyra í dag. Við gerum okkur samt dagamun því í hádeginu verður þorrablót hjá okkur að þjóðlegum sið.

Leikskóli Fjallabyggðar varð til árið 2010 við sameiningu tveggja rótgróinna leikskóla, Leikskála á Siglufirði og Leikhóla í Ólafsfirði. Leikskólinn er starfræktur á báðum stöðum og þar dvelja börn á aldrinum 1-6 ára. Skólastjóri Leikskóla Fjallabyggðar er Olga Gísladóttir og aðstoðarskólastjóri er Kristín María Hlökk Karlsdóttir. Í Leikskóla Fjallabyggðar starfar stór og fjölbreyttur hópur starfsmanna, leikskólakennarar, grunnskólakennarar, þroskaþjálfi, iðjuþjálfi, félagsliði, leikskólaliðar, stuðningsfulltrúar, leiðbeinendur, matráðar og ræstingafólk, samtals um 40 manns í misjafnlega miklu stöðuhlutfalli. Þar af eru tveir karlmenn.

Þegar Leikskóli Fjallabyggðar var stofnaður 2010 voru nemendur um 80 en nú eru þeir rúmlega 120. Margháttaðar breytingar hafa orðið frá því að leikskólarnir tveir voru byggðir (Leikhólar 1982 og Leikskálar 1993). Þá var gert ráð fyrir að meirihluti barnanna dveldi í 4 stundir á dag í leikskólanum en nú er algengast að börn dvelji þar í 7-8 stundir daglega. Nú þarf því að gera ráð fyrir að gefa börnunum að borða og að þau hafi aðstöðu til að hvílast auk þess sem gera þarf ráð fyrir aðstöðu fyrir ýmsa sérfræðinga sem sinna nemendum í leikskólanum.

Til að mæta breyttum kröfum var húsnæði Leikhóla endurnýjað og byggt við það árið 2008 og þá var tekið í notkun nýtt eldhús og aðstaða starfsmanna bætt verulega. Þá var líka tekin í notkun ný deild fyrir yngstu börnin. Á Leikskálum er staðan þannig að húsnæðið rúmar ekki lengur þá starfsemi sem nútíma leikskólastarf krefst. Elsta deildin 16 börn er nú í lausri kennslustofu á lóð leikskólans. Það er þó bráðabirgðalausn sem leysir bara hluta vandans tímabundið. Til dæmis vantar sárlega betri aðstöðu fyrir starfsfólk og þau börn sem þurfa sérfræðiþjónustu. Það er því mikið fagnaðarefni að nú stendur til að byggja við Leikskála á þessu ári og þá mun plássum fjölga og aðstaða batna til muna bæði fyrir börn og starfsfólk.

Einkunnarorð Leikskóla Fjallabyggðar eru: Það er leikur að læra og með því er lögð áhersla á að leikurinn í allri sinni mynd feli í sér nám og þroskamöguleika fyrir barnið. Í Leikskóla Fjallabyggðar kennum við einnig námsefnið Lífsleikni í leikskóla, Til að öðlast lífsleikni þarf barnið að læra umburðarlyndi í samskiptum sínum við aðra, læra að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og menningu. Það er dýrmætt veganesti og góður undirbúningur undir virka þátttöku í félagslífi og samstarf við aðra síðar í lífinu. Við tökum fyrir eina dyggð á hverri önn og lærum saman hvaða merkingu hún hefur og æfum okkur í að nota hana. Núna erum við að læra um samkennd.

Við viljum leggja áherslu á að mæta þörfum allra barna og eiga í góðu samstarfi við foreldra og bæjarbúa alla þar sem leikskólinn er mikilvæg stofnun í bæjarfélaginu.

Olga Gísladóttir, skólastjóri Leikskóla Fjallabyggðar