Brúðusafn opnar í Ólafsfirði

Frá brúðusafninu
Frá brúðusafninu
Á morgun, þann 17. júní, kl. 15:00 opnar brúðusafn í Ólafsfirði. Safnið er staðsett í húsinu Sigurhæð, Aðalgötu 15, þar sem bókasafnið er nú til húsa. 
Um er að ræða brúðusafn Helgu Ingólfsdóttur og er þetta fyrsti áfangi sem opnar á morgun á 3ju hæð hússins. Þegar bókasafnið hefur verið flutt á nýjan stað mun safnið stækka og verða settar upp fleiri dúkkur á 2. hæð hússins. 
Það er Sigurhæðir ses., félag áhugafólks um safnamenningu í Ólafsfirði, sem sér um rekstur safnsins ásamt því að sjá um rekstur Náttúrugripasafnsins, samkvæmt samningi við Fjallabyggð. Brúðusafnið er hugsað sem lifandi safn að því marki að skipt verður út brúðum með reglulegu millibili til að auka á fjölbreytileika safnsins. Í þessum fyrsta áfanga fá barbiedúkkur að njóta sín.

Opnunartímar safnsins í sumar verða alla daga, nema mánudaga, frá kl. 14:00 - 17:00.  Aðgangseyrir er 500 kr.


Batman og fleiri hasarhetjur eru til sýnis á safninu.


Brúður í þjóðbúningum.


Barbie-dúkkur í tugatali eru til sýnis á safninu.