Blásið til sóknar í Fjallabyggð

Fjallabyggð stendur frammi fyrir þeirri áskorun að nýta þau tækifæri sem munu skapast við opnun Héðinsfjarðarganga og styrkja atvinnulífið á svæðinu. Bæjarstjórn hefur hafið viðræður á vettvangi ríkis og stofnana um leiðir til að efla atvinnulífið og vill snúa vörn í sókn með víðtæku samstarfi alls samfélagsins. Fyrsta skrefið verður stigið með almennum íbúafundum sem haldnir verða á Siglufirði mánudagskvöldið 17. september og í Ólafsfirði þriðjudagskvöldið 18. september.

Þar mun bæjarstjórn kynna áform sín um aðgerðir og framvindu og í framhaldi af því verður opin umræða þar sem rætt verður um hvað þarf til að Fjallabyggð geti talist frumkvöðull. Með því fyrirkomulagi sem notað verður á fundinum og kallast ,,Heimskaffi", eiga allir jafna möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Umsjón með fundinum verður í höndum ráðgjafarfyrirtækisins Alta sem stýrt hefur íbúaþingum víða um land. Á fundina mætir einnig fulltrúi frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Í framhaldi af fundunum verður unnið úr þeim hugmyndum og ábendingum sem þar koma fram og síðan er stefnt að enn frekara samstarfi og samræðu bæjarstjórnar, fyrirtækja, félagasamtaka, frumkvöðla og allra íbúa. Fyrirkomulag þess mun m.a. ráðast af skilaboðum íbúafundanna.

Það er von bæjarstjórnar að með fundunum hefjist markviss ganga sem miði að því að efla trú heimamanna á framtíðina í Fjallabyggð og virkja kraft og frumkvæði samfélagsins sjálfs. 

Tímasetning og staðir.:
Siglufjörður: mánudagskvöldið 17. september kl. 20.00 í Íþróttahúsinu á Siglufirði.
Ólafsfjörður: þriðjudagskvöldið 18. september kl. 20.00 í félagsheimilinu Tjarnarborg. 

Þórir Kristinn Þórisson, bæjarstjóri.