Berjadagar 2016, tónlistarhátíð í Ólafsfirði haldin í 18. sinn

Berjadagar 2016
Berjadagar 2016

Berjadagar 2016, tónlistarhátíð í Ólafsfirði haldin í 18. sinn.

Nú styttist í síðustu hátíð sumarsins í Fjallabyggð en listahátíðin Berjadagar hefst á föstudagskvöldið 12. ágúst.
Í ár eru liðin 105 ár frá fæðingu Sigursveins D. Kristinssonar tónskálds og uppeldisfrömuðar frá Ólafsfirði. Sönglög hans voru hljóðrituð á tvöfaldan hljómdisk á 100 ára afmæli hans árið 2011 og var útgáfan tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna. Þetta lyfti hulunni af þessum sönglagasjóði og gerði hann aðgengilegan öllum sem vilja kynnast heillandi hljóðheimi Sigursveins. Tónlistarhátíðin Berjadagar 2016 er tileinkuð verkum hans og mun dagskráin endurspegla það.

Hátíðin hefst föstudagskvöldið 12. ágúst með tónleikum Þórunnar Elínar Pétursdóttur sópransöngkonu og Sólveigar Önnu Jónsdóttur í Ólafsfjarðarkirkju. Fluttar verða nýjar útsetningar Báru Grímsdóttur fyrir sópran, slagverk og selló á gömlum íslenskum barnagælum ásamt frumsömdum lögum Báru við íslenskar þjóðvísur. Einnig hljómar verkið Lysting er sæt að söng eftir Snorra Sigfúsar Birgissonar fyrir sópran og selló við texta úr fornum handritum. Á síðari hluta tónleikanna syngur Þórunn Elín fjölbreytta efnisskrá með sönglögum eftir m.a. Grieg og Sibelius. Og líklega í fyrsta sinn sem sönglög úr Lied des gefahrenden Gesellen eftir austurríkismanninn Gustav Mahler hljóma á Berjadögum en það er ein þekktustu söngljóð tónlistarsögunnar og ekki fyrir hvern sem er að spreyta sig á!

Með Þórunni leika Kjartan Guðnason á slagverk og Ólöf Sigursveinsdóttir á selló.

Á laugardeginum 13. ágúst kl. 15 verða barnatónleikar í Pálshúsi, gömlu endurbyggðu verslunarhúsi sem fær nú nýtt hlutverk sem safnahús. Pálshús er við hliðina á Kaffi Klöru fyrir þá sem ekki þekkja til. Þar mun Þórunn Elín rifja upp íslenskar þulur og orðaleiki fyrir börn frá fyrri tíð en Kjartan Guðnason og Ólöf Sigursveinsdóttir munu verða henni til aðstoðar auk þess sem Kjartan mun kynna heim slagverkshljóðfæranna fyrir gestum tónleikanna.

Kl. 20 verða tónleikar í Ólafsfjarðarkirkju þar sem Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari og Sólveig Anna Jónsdóttir píanóleikari munu flytja konfektmolum fyrir selló. Hryggjarstykkið á tónleikunum verður hinn gullfallegi sellókonsert í D-dúr eftir Joseph Haydn. En í kringum einleikskonsertinn raðast gullmolar eins og Rómansa eftir Sigursvein D. Kristinsson og Verk fyrir selló og píanó eftir Kazimierz Wilkomirski sem er samið árið 1943.

Á sunnudagsmorgninum 14. ágúst kl. 11 verður „berjamessa“ í kirkjunni þar sem Sr. Sigríður Munda Jónsdóttir sóknarprestur predikar og þjónar fyrir altari. Ave Kara Tonisson leikur á orgel. Um söng og hljóðfæraleik sjá Sigrún Valgerður Gestsdóttir, Jón Þorsteinsson, Sigursveinn Magnússon og Ólöf Sigursveinsdóttir.

Um miðjan dag á sunnudeginum kl. 15:30 verður dagskrá á Hornbrekku, dvalarheimili aldraðra. Þar verður brugðið á leik yfir kaffibolla að vanda og slegið á létta strengi. Flytjendur: Sigrún Valgerður Gestsdóttir sópran og Sigursveinn Magnússon píanóleikari. Leikin verður blönduð ljóðadagskrá.

Hátíðinni lýkur með hinu berjabláa lokakvöldi kl. 20 í Menningarhúsinu Tjarnarborg. Þar munu listamenn Berjadaga bregða á leik og slá á létta strengi ásamt Guðmundi. Sérstakur gestur verður Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópransöngkona en margir minnast eftirminnilegra tónleika hennar á Berjadögum 2015. Siðameistari kvöldsins og kynnir verður Guðmundur Ólafsson leikari og tenór. Milli viðburða geta hátíðargestir farið til berja, en fréttir berast nú af því að spretta sé með allra besta móti eftir hlýtt og sólríkt sumar.

Miðar verða við innganginn og á midi.is.

Allir velkomnir!

Aðgangseyrir tónleikar: 2.500 kr.
Leikhús: 3.000 kr.
Hátíðarpassi: 6.500 kr.
Frítt fyrir 15 ára og yngri
Miðar við innganginn og midi.is
Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar.