Baldur Ævar keppir í Peking

Fimm íslenskir íþróttamenn undirbúa sig nú fyrir Ólympíumót fatlaðra sem fram fer í Peking í september og keppa þar í sundi, frjálsíþróttum og kraftlyftingum. Þeirra á meðal er Ólafsfirðingurinn Baldur Ævar Baldursson sem keppir í langstökki. Baldur Ævar er öflugur íþróttamaður í fleiri en einni grein og hefur m.a. hlotið styrki úr Afrekssjóði ÍSÍ. Baldur Ævar starfar hjá Fjallabyggð við íþróttasvæðin í Ólafsfirði.
Þátttökulöndum á Ólympíumóti fatlaðra er úthlutað ákveðið mörgum sætum allt eftir árangri á alþjóðlegum mótum síðustu þrjú ár á undan. Það er svo í höndum þátttökulandanna að ákveða hvaða keppendur fylla þessi sæti.
Líkt og Ólympíuleikarnir fer Ólympíumót fatlaðra fram í höfuðborg Kína, Peking, og hefst keppni sjötta september næstkomandi. Fyrsti Íslendingurinn til að spreyta sig í ár er Sonja Sigurðardóttir úr ÍFR, sem jafnframt er eina konan í hópnum, en hún keppir í 50 metra baksundi 8. september.
Eins og áður segir keppir Baldur Ævar Baldursson úr Snerpu í langstökki, Eyþór Þrastarson úr ÍFR keppir í 100 m baksundi og 400 m skriðsundi, Jón Oddur Halldórsson úr Reyni/Víkingi keppir í 100 m hlaupi og Þorsteinn Magnús Sölvason keppir í lyftingum í 75 kg flokki.