Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2012 er Guðrún Þórisdóttir

Guðrún Þórisdóttir (mynd af siglo.is)
Guðrún Þórisdóttir (mynd af siglo.is)
Föstudaginn 2. mars var Guðrún Þórisdóttir – Garún, tilnefnd bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2012.
Þetta er í þriðja sinn sem bæjarlistamaður Fjallabyggðar er tilnefndur en þeir sem áður hafa fengið þennan titil eru Bergþór Morthens og Örlygur Kristfinnsson.
Bjarkey Gunnarsdóttir formaður menningarnefndar afhenti Guðrúnu viðurkenninguna ,,Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2012“ og sagði nokkur orð um listakonuna.

Guðrún Þórisdóttir – eða Garún - er fædd í Reykjavík 1971. Garún útskrifaðist úr Myndlistaskóla Akureyrar árið 1994 í fagurlistadeild og hefur unnið óslitið að list sinni síðan. Hún hefur haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum og tekið þátt í samsýningum bæði hérlendis og erlendis á undanförnum árum. Einnig var hún gestalistamaður í Gmund í Austurríki árið 1996.

Garún gerir ekki upp á milli efna við listsköpun sína þó hún vinni að mestu með olíuliti á striga þá notast hún líka við blandaða tækni. Lífið og tilveran frá sjónarhorni konu er mest áberandi í listsköpun Garúnar enda má finna þær í flestum hennar verkum.