Ársþing UÍF - Þórarinn nýr formaður

Þórarinn Hannesson er nýr formaður UIF
Þórarinn Hannesson er nýr formaður UIF

Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar (UÍF) hélt ársþing sitt að Íþróttamiðstöðinni á Hóli í Siglufirði 19. maí sl. Félög innan sambandsins höfðu rétt á að senda 31 fulltrúa til þingsins og af þeim mættu 17 frá 9 af þeim 11 félögum sem eru innan UÍF. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og gekk þingið vel fyrir sig undir stjórn Steinars Svavarssonar þingforseta.  Þrír aðilar, sem setið hafa í stjórn frá upphafi, gengu úr stjórn á þinginu, Guðný Helgadóttir formaður, Sigurpáll Gunnarsson varaformaður og Sigurður Gunnarsson gjaldkeri sambandsins.  Nýr formaður UÍF var kosinn Þórarinn Hannesson og eftir stjórnarkjör sitja í stjórn auk hans: Óskar Þórðarson, Anna Þórisdóttir, Brynjar Harðarson og Telma Björk Birkisdóttir.

Rekstur UÍF gekk vel á síðasta ári og fjárhagsstaða sambandsins er góð. Líflegt starf er innan flestra félaga sambandsins, eins og lesa mátti í skýrslu þingsins, en starfsemi UÍF snýst að mestu um að vera málsvari íþróttahreyfingarinnar í Fjallabyggð út á við, fylgja eftir skýrsluskilum aðildarfélaga, varðveita og skipta því fé sem til íþróttahreyfingarinnar hefur verið veitt, gefa umsagnir um íþróttatengd málefni, standa fyrir og halda utan um ýmis verkefni sem snúast um að auka almenna hreyfingu íbúa sveitarfélagsins og huga að rekstri íþróttamiðstöðvarinnar á Hóli.

Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, var fulltrúi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á þinginu og Haukur Valtýsson formaður UMFÍ sat þingið fyrir hönd Ungmennafélags Íslands. Haukur notaði tækifærið og veitti þremur aðilum sem unnið hafa mikið og óeigingjarnt start fyrir íþróttahreyfinguna í Fjallabyggð starfsmerki UMFÍ. Það voru Margrét Einarsdóttir og þeir bræður Sigurpáll og Sigurður Gunnarssynir.