Fréttir & tilkynningar

Uppskeruhátíð Ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Ferðamálasamtök Norðurlands eystra og vestra, Ferðaþjónustuklasinn/ Vaxey og Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi bjóða til Uppskeruhátíðar ferðaþjónustunnar þann 10. nóvember. Þangað eru boðnir allir sem starfa að ferðamálum á Norðurlandi.Markmiðið með hátíðinni er að efla samkennd og samvinnu á milli ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og að ferðaþjónustuaðilar kynnist því sem að önnur svæði hafa upp á að bjóða. Að þessu sinni eru Þingeyingar gestgjafar en áætlað er að þessi hátíð verði haldin árlega og þá á mismunandi svæðum á Norðurlandi. Hafa ferðaþjónustufyrirtæki í Þingeyjarsýslu lagt sitt af mörkum til að gera hátíðina sem glæsilegasta.Dagskráin hefst á Húsavík og í framhaldinu verður farið í hringferð um nágrennið með ýmsum skemmtilegum uppákomum á leiðinni. Um kvöldið verður svo dagskrá sem kætir bæði líkama og sál.Allar nánari upplýsingar og skráning eru á www.nordurland.is
Lesa meira

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð?

Átta af tíu þingmönnum Norðausturkjördæmis auk eins úr Norðvesturkjördæmis, með Birki J. Jónsson í broddi fylkingar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, þar vilja þeir að boðið verði upp á nám til stúdentsprófs auk þess sem skólinn sérhæfi sig í sjávarútvegsmenntun. Lagt er til að ráðherra skipi undirbúningshóp sem í sitji fulltrúi menntamálaráðherra, sem veiti hópnum forustu, fulltrúi ráðherra byggðamála, fulltrúi sjávarútvegsráðherra, fulltrúi Dalvíkurbyggðar, fulltrúi Ólafsfjarðarbæjar og fulltrúi Siglufjarðarkaupstaðar. Flutningsmenn tillögunnar eru auk Birkis: Halldór Blöndal, Kristján L. Möller, Steingrímur J. Sigfússon, Dagný Jónsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Hlynur Hallsson og Sigurjón Þórðarson.Frétt á www.dagur.net
Lesa meira

Bæjarráð Siglufjarðar og Ólafsfjarðar á fund ráðherra.

Bæjarráð Siglufjarðar og Ólafsfjarðar funduðu með félagsmálaráðherra, Árna Magnússyni, í gær vegna fyrirhugaðra viðræðna um sameiningu þessara sveitarfélaga. M.a. voru kynntar reglur sem gilda um aðkomu ráðuneytis að hugsanlegri sameiningu, reglur um jöfnunarsjóð o.fl. en hins vegar voru engin loforð gefin um fjármagn frá ríkinu enda ekki tímabært á þessu stigi. Bæjarstjórar beggja sveitarfélaga hafa lýst yfir ánægju með fundinn.Gera má ráð fyrir að í framhaldinu verði settar á fót starfsnefndir hjá báðum sveitarfélögum til þess að fara yfir málin og kanna til hlítar möguleika á sameiningu.
Lesa meira

Auglýst eftir þátttakendum í forvali vegna Héðinsfjarðarganga.

Vegagerðin hefur nú auglýst eftir þátttakendum í forvali vegna Héðinsfjarðarganga. Auglýsingu má sjá í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar en skila skal forvalsgögnum í síðasta lagi þriðjudaginn 13. desember n.k.Nánar um þetta má sjá á heimasíðu Vegagerðar, www.vegagerdin.is.
Lesa meira

Tillaga um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði felld.

Tillaga um sameiningu 9 sveitarfélaga í Eyjafirði var felld í kosningunum á laugardag, tillagan var aðeins samþykkt á Siglufirði og í Ólafsfirði en felld með afgerandi hætti í öðrum sveitarfélögum á svæðinu. Niðurstaðan þýðir einfaldlega það að ekki verður kosið aftur um þessa tillögu og er því líklegt að skipan sveitarfélaga á svæðinu verði óbreytt um sinn.Kosningaþátttaka á Siglufirði var tæp 61% sem verður að teljast þokkalegt, 65% sögðu já en 35% sögðu nei og er því niðurstaðan hér afar skýr.
Lesa meira

Ný heimasíða Leikskólans.

Leikskólinn hefur opnað nýja heimasíðu og er slóðin á henni www.leikskolinn.is/leikskalarEldri heimasíða verður ekki uppfærð en nýja síðan er auðveldari í vinnslu og ætti að gefa foreldrum enn betri upplýsingar.
Lesa meira

Fjölmennur kynningarfundur um sameiningarmál.

Í gærkvöldi var haldinn fyrsti kynningarfundur samstarfsnefndar um sameiningu í Eyjafirði og var hann hér á Siglufirði. Fundurinn tókst afar vel, mikið fjölmenni mætti á fundinn og augljóst mál að mikill áhugi er fyrir því að kynna sér málin til hlýtar. Þrír fulltrúar samstarfsnefndar, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Unnar Már Pétursson og Valdimar Bragason, fluttu framsöguerindi og síðan var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir. Margar ágætar athugasemdir komu fram og fólk var vonandi einhvers vísari eftir þessar góðu umræður.Bæjarstjórn Siglufjarðar boðar til fundar um sameiningarmálin í næstu viku og verður sá fundur fimmtudaginn 29. september.Myndin er fengin af heimasíðu Steingríms og sýnir hluta fundarmanna.
Lesa meira

Málefnaskrá vegna sameiningar komin út

Málefnaskrá vegna sameiningarkosninga þann 8. október nk. hefur nú verið dreift í hús á Eyjafjarðarsvæðinu. Hægt er að nálgast málefnaskránna á heimasíðu Sameiningarnefndar og er slóðin http://www.eyfirdingar.is/pdf/malefnaskra.pdfFólk er hvatt til þess að kynna sér málefnaskránna jafnframt því að mæta á þá kynningarfundi sem eru framundan, þann fyrri n.k. mánudag.
Lesa meira

Sameiningarkosningar - reglur.

Nokkuð hefur vafist fyrir fólki hvernig sameiningarkosningunum er háttað eða hversu mörg sveitarfélög þarf til að samþykkja sameiningu 9 sveitarfélaga í Eyjafirði.Ef tillaga sameiningarnefndar hlýtur ekki samþykki íbúa í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en meirihluti þeirra sem afstöðu taka í atkvæðagreiðslu um sameiningartillögu lýsir sig þó fylgjandi sameiningu, skal greiða atkvæði að nýju innan 6 vikna í sveitarfélögum þar sem tillaga var felld. Skilyrði er að tillagan hafi verið samþykkt í amk tveimur af þeim sveitarfélögum er tillagan náði til.Dæmi: Ef sameining yrði t.d. samþykkt á Akureyri, Grýtubakkahreppi og Siglufirði en felld í öllum hinum sveitarfélögunum þá væri það að líkindum nóg til þess að kjósa yrði aftur innan 6 vikna í þeim sveitarfélögum sem höfnuðu sameiningu.Að lokinni síðari atkvæðagreiðslu er sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga var samþykkt heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga. Þetta verður þó ekki gert nema tillagan hafi verið samþykkt í a.m.k. 2/3 sveitarfélaganna og að því tilskyldu að í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/3 hlutar íbúa á svæðinu.Sameiningarnefnd getur ákveðið að leggja fram nýja tillögu að sameiningu sveitarfélaga ef tillaga nefndarinnar er felld í atkvæðagreiðslu.
Lesa meira

Kynningarfundir vegna sameiningarmála

Fyrirhugaðir eru tveir kynningarfundir á Siglufirði vegna sameiningarkosninga í Eyjafirði þann 8. október nk.Fyrri fundurinn verður á vegum Samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði og verður hann þann 19. september nk. á Kaffi Torgi. Fundurinn verður auglýstur nánar þegar nær dregur. Síðari fundurinn er opinn borgarafundur um sameiningarmál og verður hann haldinn fimmtudaginn 29. september nk. Bæjarráð Siglufjarðar boðar til fundarins og verður hann auglýstur nánar þegar nær dregur.
Lesa meira