Fréttir & tilkynningar

Úthlutunarreglur byggðakvóta.

Á heimasíðu Þormóðs ramma – Sæbergs má sjá yfirlýsingu vegna reglna um úthlutun byggðakvóta á Siglufirði fiskveiðiárið 2005-2006. Bæjaryfirvöld harma niðurstöðu þeirrar yfirlýsingar þar sem beinlínis er gefið í skyn að Siglufjarðarkaupstaður sé með reglum sínum að senda fyrirtækinu ÞRS skýr skilaboð um að bæjaryfirvöld hafi ekki áhuga á að taka þátt í að leysa þann vanda sem blasir við rækjuvinnslu hér í bæ. Ugglaust má ávallt gagnrýna úthlutun byggðakvóta og sitt sýnist að sjálfsögðu hverjum hvað það varðar en úthlutunarreglur eru nú gerðar af bestu vitund og með hagsmuni heildarinnar í huga. Byggðakvóti er fyrst og fremst hugsaður til þess að styrkja vinnslu og veiðar í viðkomandi byggðarlagi. Gríðarlegur vöxtur hefur verið í útgerð smábáta á Siglufirði á árinu sem er að líða og má nefna að landaður afli smábáta á árinu 2005 er nú um 4700 tonn á móti um 1500 tonnum allt árið 2004. Reglur um úthlutun byggðakvóta ákvarðast því fyrst og fremst á því að bæjaryfirvöld telja mikilvægt að styðja við þá þróttmiklu smábátaútgerð sem hér hefur verið að vaxa. Jafnframt má nefna að á síðasta ári var hér settur á fót fiskmarkaður m.a. með þátttöku Þormóðs ramma – Sæbergs og telja bæjaryfirvöld afar mikilvægt að við slíka starfsemi, nýja starfsemi í atvinnuflóru Siglufjarðar, sé reynt að styðja með tiltækum ráðum. Það eru því fyrst og síðast þau sjónarmið að verið sé að skjóta styrkari stoðum undir vaxtarbrodda í atvinnulífi Siglufjarðar sem ráða för þegar reglur um úthlutun byggðakvóta eru samþykktar í bæjarstjórn Siglufjarðar. Bæjaryfirvöld á Siglufirði hafa fullan skilning á þeim vanda sem sjávarútvegur og þá helst rækjuvinnsla á við að glíma um þessar mundir og eru að sjálfsögðu tilbúin til viðræðna við fyrirtæki ÞRS um lausnir á þeim vanda. Stjórnendum og starfsmönnum Þormóðs ramma – Sæbergs óska bæjaryfirvöld góðs gengis og gleðilegrar hátíðar sem og bæjarbúum öllum og vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi.
Lesa meira

Sameining sveitarfélaga.

Nokkrar athugasemdir hafa verið gerðar vegna þess að ekki hafi farið fram kynning á stöðu mála varðandi kosningar um sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Staðan á þessum málum er þannig að beðið er samantektar frá Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri og frá endurskoðendum sveitarfélaganna en þegar þær upplýsingar liggja fyrir verða málin að sjálfsögðu kynnt fyrir íbúum þessara staða mjög nákvæmlega. Bæjarstjórnir beggja staða hafa samþykkt eftirfarandi tillögu eins og fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar: "Samstarfsnefnd um sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem kosin var annars vegar á fundi bæjarstjórnar Ólafsfjarðar þann 27. október 2005 og hinsvegar bæjarstjórnar Siglufjarðar þann 27. október 2005 leggur til að gengið verði til kosninga um sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Sigufjarðarkaupstaðar og stefnt verði að kosningu laugardaginn 28. janúar 2006."Hér er því stefnt að kosningu þann 28. janúar 2006 og því var tímabært að auglýsa utankjörfundaratkvæðagreiðslu þar sem nokkurn tíma verður að gefa til slíkrar atkvæðagreiðslu. Gera má ráð fyrir því að upplýsingar frá RHA og endurskoðendum liggi fyrir nú rétt fyrir jól og verða því kynningar á stöðu mála í framhaldi af því.
Lesa meira

Tónlistarskólinn opnar heimasíðu.

Tónlistarskóli Siglufjarðar hefur opnað nýja heimasíðu þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um skólann.Slóðin er www.sigloskoli.is/tonskoli
Lesa meira

Reglur um úthlutun byggðakvóta.

Eftirfarandi reglur um úthlutun byggðakvóta hafa verið samþykktar í bæjarráði Siglufjarðar:“Megintilgangur reglnanna skal vera að auka útgerð og vinnslu á fiski á Siglufirði og fjölga störfum. 1. Veiðiheimildum samkvæmt bréfi Sjávarútvegsráðuneytisins frá 8. ágúst 2005 skal úthlutað til einstakra aflamarksskipa og krókaaflamarksbáta, sem leggja upp afla sinn til vinnslu hjá fiskverkunarstöðvumeða fiskmarkaði á Siglufirði, samkvæmt nánara samkomulagi. Eingöngu skulu fiskiskip sem skráð eru á Siglufirði 1.09.2005 koma til greina við úthlutun aflaheimilda. Ekkert fiskiskip skal hljóta meira en 20 þorskígildislestir. Eftirstöðvum vegna 20 tonna ákvæðis skal skipta á milli fiskiskipa á grundvelli greinar 2.1.b. Ef bolfiskaflamark skips hefur minnkað frá úthlutun fiskveiðiársins 2004/2005 til 1.september 2005 vegna framsals þá kemur það skip aðeins til greina við skiptingu 15% hlutarins sbr. c-lið 2.1. Þeir aðila sem fengu úthlutað byggðakvóta á síðasta fiskveiðiári og hafa ekki fylgt þágildandi reglum varðandi ráðstöfun byggðakvóta skulu ekki koma til greina við úthlutun nú.2. Byggðakvóta verður skipt þannig milli þeirra fiskiskipa að hámarki 30 brúttórúmlestir að stærð er sækja um og fullnægja skilyrðum.2.1. Veiðiheimildunum 210 þorskígildistonnum skal skipt sem hér segir:a). 45% skal skipt jafnt á milli fiskiskipa.b). 35% skal skipt á grundvelli úthlutunar veiðiheimilda í upphafi fiskveiðiársins 2005/2006.c. 20% byggðakvóta verður úthlutað í janúar 2006. Um þann hluta geta sótt um: a) Fiskiskip sem uppfylla ekki skilyrði um framsal sbr. 2. málsgr. reglu 1.b) Fiskiskip sem gera út á ferðamennsku. 3. Öllum aðilum á Siglufirði sem úthlutað er byggðakvóta er skylt að leggja til aflaheimildir að lágmarki til jafns við úthlutaðan byggðakvóta og skoðast móttekin umsókn sem staðfesting viðkomandi á því að það verði gert. 4. Þeir aðilar sem úthlutað er byggðakvóta skulu leggja fram gagnkvæman samning við fiskvinnslu/fiskmarkað á Siglufirði um löndun afla. Öllum afla samkvæmt þessari grein skal landað fyrir lok 31. júlí 2006.5. Úthlutaður byggðakvóti er ekki framseljanlegur en heimilt er að skipta á milli bolfisktegunda. Minnki aflaheimildir fiskiskips sem hlýtur byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári vegna framsals skulu þær afsala sér sambærilegu magni af byggðakvótanum, sem úthlutað verður að nýju.6. Í lok fiskveiðiárs skulu útgerðir, sem fengið hafa byggðakvóta skila til sveitastjórnar skýrslu um landaðan afla til vinnslu í samningsbundnum fiskverkunarfyrirtækjum eða á fiskmarkaði og skal skýrslan staðfest af viðkomandi samningsaðila. Verði skýrslu ekki skilað eða ákvæðum þessara reglna um löndun og vinnslu afla ekki fylgt skulu viðkomandi bátar og fiskverkanir ekki eiga rétt á úthlutun byggðakvóta komi til slíkrar úthlutunar.Umsóknarfrestur er til 5. desember n.k.
Lesa meira

Skíðasvæðið opið

Skíðasvæðið verður opið um helgina. Nægur snjór er í skarðinu og aðstæður eins og best verður á kosið. Innheimt verður skv. gjaldskrá. Upplýsingasími skíðasvæðisins er 878-3399. myndir
Lesa meira

Skíðasvæðið

Nú er unnið að því að opna skíðasvæðið í Skarðsdal. Verið er að ryðja veginn og gera neðri lyftuna klára. Stefnt er að því að opna á morgun, laugardaginn 5. nóvember kl. 10.00. Minnum á upplýsingasíma skíðasvæðisins 878-3399 og 467-1806
Lesa meira

Ný líkamsræktarstöð opnuð í gær.

Nýja líkamsræktarstöðin var opnuð formlega í gær en hún er til húsa í viðbyggingu íþróttahúss. Stöðin er vel tækjum búin auk þess sem á neðri hæð byggingarinnar er mjög góð veitingaaðstaða og aðstaða til fundahalda. Með opnun stöðvarinnar er verið að svara kröfum og óskum bæjarbúa um betri aðstöðu til hollrar hreyfingar og gera má ráð fyrir að mikil aðsókn verði í þetta nýjasta íþróttamannvirki okkar Siglfirðinga. Opnunartíma stöðvarinnar má sjá í Tunnunni.Meðfylgjandi mynd er fengin að "láni" á síðu Steingríms, Lífið á Sigló.
Lesa meira

Málþing um atvinnumál.

Þann 4. nóvember 2005 standa Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Svæðisráð Svæðisvinnumiðlunar Norðurlands vestra fyrir málþingi um atvinnumál á Norðurlandi vestra. Yfirskrift málþingsins er Norðurland vestra 2020 og verður það haldið í Verinu, húsnæði Háskólans á Hólum á Sauðárkróki. Málþingið stendur frá 10:30 til 17:00.Á málþinginu verður reynt að varpa ljósi á þróun atvinnulífs á Norðurlandi vestra síðustu fimmtán árin og hvernig líklegt er að atvinnulíf muni þróast á næstu 15 árum, en í tengslum við málþingið hefur verið gerð nokkuð umfangsmikil könnun á framtíðarsýn atvinnurekenda á Norðurlandi vestra. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir hefur framsögu á málþinginu en þennan dag mun ráðherra einnig tilnefna starfshóp til undirbúnings að vaxtarsamningi fyrir Norðurlands vestra.Á málþinginu verður reynt að draga fram hvernig atvinnulíf hefur þróast á undanförnum árum, staða atvinnulífs í dag verður skoðuð sérstaklega og reynt að skyggnast inn í framtíðina með aðstoð atvinnurekenda og sérfræðinga á sviði atvinnu- og menntamála. Yfirskrift málþingsins verður Norðurland vestra 2020, og er hugmyndin að varpa ljósi á mögulega framtíð atvinnuveganna til þess tíma. Í raun má segja að málþinginu sé ætlað að svara eftirfarandi þrem spurningum.1 Hvernig hefur atvinnulífið á Nv þróast síðustu 15 árin?2 Hver er staða atvinnulífsins í dag og hvaða kraftar verka á það?3 Hvernig má búast við að atvinnulífið verði á Nv eftir 15 ár?Leitast verður við að svara ofangreindum spurningum útfrá ólíkum forsendum og í anddyri ráðstefnuhússins verður sett upp sýning, þar sem þróun atvinnumála á Norðurlandi vestra í fortíð, nútíð og framtíð verður gerð skil. Kynntar verða niðurstöður viðamikillar könnunar sem gerð var meðal atvinnurekenda á Norðurlandi vestra í þeim tilgangi að varpa ljósi á framtíðarsýn þeirra.Erindi framsögumanna, sem eru virtir fræðimenn og þátttakendur í Íslensku atvinnulífi, munu fjalla m.a. um vaxtasamninga, samstarf atvinnurekenda, þróun mannfjölda, uppbyggingu lítilla fyrirtækja, áhrif menntunar á menningu og atvinnulíf ásamt mikilvægi jákvæðrar ímyndar fyrir Norðurland vestra. Að fyrirlestrum loknum verða settir saman umræðuhópar sem ætlað er að ræða nánar það sem fram kemur á málþinginu. Hverjum hópi er falið tiltekið umfjöllunarefni tengt atvinnuþróun og er þeim ætlað að komast að niðurstöðu um hvert sé æskilegt að stefna og hvaða leiðir séu vænlegar til að ná árangri í atvinnuþróun Niðurstöður hópanna verða kynntar í lok málþingsins.
Lesa meira

Siglufjörður – Tillaga að frístundabyggð

Bæjarstjórn Siglufjarðar auglýsir hér með tillögu að deiliskipulagi fyrir frístundabyggð á Saurbæjarási og Ráeyri, sem fram koma á tveimur skipulagsuppdráttum dags. 6. sept. 2005.Um er að ræða tvö svæði sunnan Skútuár ( svæði I og svæði II ) og tvö svæði norðan Skútuár ( svæði III og svæði IV )Tillagan verður til sýnis á bæjarskrifstofunum Gránugötu 24 frá og með föstudeginum 21. október 2005 til og með föstudagsins 18. nóvember 2005.Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við breytingatillöguna. Frestur til að skila inn athugasemdum er til föstudagsins 2. desember 2005. Skila skal athugasemdum á bæjarskrifstofunum Gránugötu 24. Hver sá sem eigi gerir athugasemdir við breytingartillöguna fyrir tilskilinn frest telst samþykkur henni.Tillögurnar eru til sýnis á bæjarskrifstofu.Skipulags- og byggingarfulltrúi Siglufjarðar
Lesa meira

Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Siglufjarðar 2003-2023

Bæjarstjórn Siglufjarðar auglýsir hér með tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Siglufjarðar 2003-2023 samkv. 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.Skipulagssvæðið við Saurbæjarás er endurskilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð og opið svæði til sérstakra nota. Tillagan gerir ráð fyrir stækkun svæðisins á kostnað óbyggðs svæðis.Tillagan verður til sýnis á bæjarskrifstofunum Gránugötu 24 frá og með föstudeginum 21. október 2005 til og með föstudagsins 11. nóvember 2005.Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við breytingatillöguna. Frestur til að skila inn athugasemdum er til föstudagsins 11. nóvember 2005. Skila skal athugasemdum á bæjarskrifstofunum Gránugötu 24. Hver sá sem eigi gerir athugasemdir við breytingartillöguna fyrir tilskilinn frest telst samþykkur henni.Tillagan er til sýnis á bæjarskrifstofum.Skipulags- og byggingarfulltrúi Siglufjarðar
Lesa meira